Ljóðasamkeppni á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember

30/11/2007

Hvítt ljóð

Hvít stofa, bláir stólar
rauðköflóttar gardínur.
Að vera á sjúkrahúsi
samt með þeim öllum hér.
Hvar er ég?

Höfundur: Júlí Heiðar Halldórsson

Ummæli dómnefndar:

Í þessu ljóði er ljóðmælandi ekki viss hvar hann er, hann ruglar saman skólastofunni sem hann situr í ásamt bekkjarfélögum sínum og sjúkrastofu. Skemmtileg pæling í umhverfinu og hvað er líkt með þessum tveimur stofnunum, skóla og sjúkrahúsi.

Undarlegt einelti

Á meðan myndvarpinn var að kitla mig
Girtu stólarnir niður um mig.
Ég lít upp og sé klukkuna hlæja,
hún hefur stoppað tímann.
Núna getur enginn bjargað mér.

Ég horfi á sjónvarpið
en það er erfitt þegar það hlær bara að manni.
Fjarstýringin skiptir á Omega
bara til þess að pirra mig.
Getur einhver bjargað mér?

Höfundur: Ægir Þór Steinarsson

Ummæli dómnefndar:

Hér öðlast skólahúsgögnin og kennslutækin sjálfstætt líf í vel gerðum persónugervingum. Ljóðmælandi upplifir umhverfið fjandsamlegt, skólinn leggur hann í einelti og ræður öllu. Klukkan getur meira að segja stöðvað tímann. Heima er sama sagan, sjónvarpið og fjarstýringin öðlast eigið líf og gera líf hans ömurlegt. Hann leitar að björgun en er búinn að tapa trúnni áður en hann ber fram óskina um hjálp.

Gengur einn um gangana.
Enginn lítur við honum,
enginn spyr hann að neinu
Eins og hann sé ósýnilegur.
Allir flissa og pískra.
Honum er alveg sama.
Þau eru ekkert betri en hann.

Höfundur: Magdalena Gunnarsdóttir

Ummæli dómnefndar:

Nafnleysi ljóðsins undirstrikar einsemd ljóðmælanda sem er sniðgenginn eða ennþá verra; aðhlátursefni. En í einsemdinni og útilokuninni er að finna styrk, hann trúir á sjálfan sig og kærir sig kollóttan um þá sem veitast að honum.

 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira