Nemendur og kennarar á faraldsfæti.
Það sem af er haustönn hafa margir nemendur og kennarar verið á faraldsfæti. Árleg Þórsmerkurferð almennrar brautar 1 var farin í síðustu viku og nemendur almennrar námsbrautar 2 fóru í ferð um Reykjanes.
Nemendur í byrjunaráfanga í jarðfræði, NÁT 113, fóru í sína reglubundnu námsferð um Suðurland þriðjudaginn 19. sept. Tilgangurinn er að nemendur kynnist þeim náttúrufyrirbærum sem þeir læra um í skólanum af eigin raun. Veður var gott og tókst ferðin í alla staði mjög vel undir styrkri stjórn Kristins A. Guðjónssonar og Óttars Ólafssonar náttúrufræðikennara.
Mynd úr jarðfræðiferð.
Nemendur í lífsleikni fóru í gróðursetningarferð í Þormóðsdal 1. september. Björn Guðbrandur tók á móti þeim og settu nemendur niður plöntur, mældu vöxt plantna frá síðasta ári og hlúðu að eldri plöntum. Upplýsingarnar voru skráðar í gagnagrunn www.gff.is
Hópurinn stóð sig í alla staði vel og ekki skemmdi fallegt veður, því hitinn var 18°C.
Myndir úr gróðursetningarferð í Þormóðsdal