Kennsla í vélfræðum metanbíla

11/9/2006

Á tíu ára afmælishátíð Borgarholtsskóla sem haldin var síðastliðinn laugardag þann 2. september skrifuðu fulltrúar Metan hf og Borgarholtsskóla (BHS) undir samkomulag þess efnis að BHS mun koma upp kennslu í vélfræðum metanvéla. Er stefnt að því að kennsla geti hafist á vorönn 2007.

Samkomulagið felur m.a. í sér að kennarar við bíliðnaðarbraut skólans munu afla sér þekkingar erlendis á slíkum vélum og mun Metan hf standa straum af ferðakostnaði. Einnig munu BHS og Metan hf. koma upp kennslubúnaði til notkunar við kennslu í vélfræðum metanvéla auk þess sem viðhlýtandi kennsluefni verður útbúið.
Hluti kennslunnar mun felast í því að taka venjulegan bensínbíl og breyta honum í metanbíl og mun Metan hf. útvega ökutæki og búnað til slíks. Stefnt er að því að skólinn breyti a.m.k. einum bíl á hverju misseri og mun fyrsta ökutækið verða á vegum skólans og m.a. ætlað til kennslu. Síðan er ætlunin að Metan hf. útvegi ökutæki og búnað til breytinga, skólanum að kostnaðarlausu. Með þessu móti verða nemendur bíliðnaðarbrautar virkir þátttakendur í þróun íslensk samfélags í átt að nýju eldsneyti.
Verkefnið er styrkt af þróunarsjóði Menntamálaráðuneytisins og Orkusjóði.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira