Borgarholtsskóli 10 ára - látum gott af okkur leiða.

1/9/2006

Borgarholtsskóli var settur í fyrsta sinn 2. september 1996. Í tilefni 10 ára afmælisins verður margt gert til hátíðabrigða og næsta vika verður helguð afmælinu. Afmælisvikan hefst með mótttöku fyrir starfsmenn og aðra gesti laugardaginn 2. september. Í vikunni verða svo ýmsar uppákomur en afmælisvikunni mun svo ljúka á Grafarvogsdeginum 9. september. Þá mun verða opið hús í skólanum og hátíðahöld tengd skólanum og Grafarvogsdeginum munu vera í og við skólann.

En meginþema afmælisins er að láta gott af sér leiða og til marks um það er stefnt að því að safna í samvinnu við ABC- barnahjálp 2,5 - 3 milljónum króna til byggingar skóla í bænum Jaramwala í Pakistan. Fimmtudaginn 7. september er fyrirhugað að efna til 10 km hlaups/göngu/hjólreiða nemenda og starfsfólks skólans til fjáröflunar og er stefnt að því að rúmlega 700 manns taki þátt. Takist það þá nemur samanlagður kílómetrafjöldi vegalengdinni í loftlínu til Pakistan. Lokapunktur söfnunarinnar eru styrktartónleikar í Grafarvogskirkju 14. september. Hægt er að styrkja söfnunina með því að hringja í númerið 908-1112 og verða þá skuldfærðar kr. 1000 af símareikningi og fer upphæðin beint inn á reikning hjá ABC barnahjálp sem er sérstaklega merktur þessu verkefni. Einnig er hægt að leggja beint inn á bankareikning söfnunarinnar nr. 1155-15-41414 kennitala 690688-1589.

Gísli Björnsson sem útskrifaðist af sérnámsbraut Borgarholtsskóla síðastliðið vor hóf söfnunina með myndarlegu framlagi við skólaslitin í vor. Maxwell Ditta enskukennari við skólann er í launalausu leyfi til að sinna hjálparstörfum í Pakistan. Fjöldi starfsmanna við skólann hefur gerst stuðningsforeldrar við börn í Pakistan og styrkja þau til náms með mánaðarlegu framlagi.

BHS2006


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira