Hvatningarverðlaun til Borgarholtsskóla.

17/5/2006

Borgarholtsskóli fékk hvatningarverðlaun fjármálaráðuneytisins samkvæmt tillögu nefndar um ríkisstofnanir sem skara fram úr og eru til fyrirmyndar. Ríkisskattstjóri fékk sérstök verðlaun og Umferðastofa var valin ríkisstofnun til fyrirmyndar.

Nefnd um val á ríkisstofnun til fyrirmyndar var skipuð: Katrínu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Lýsis hf, sem var formaður nefndarinnar, Einari Ragnari Sigurðssyni, formanni Stjórnvísi og Þorkeli Sigurlaugsyni, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík.
Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Másson og Leifur Eysteinsson hjá fjármálaráðuneytinu.

Nefndin telur starfsemi Borgarholtsskóla einkennast af miklum metnaði. Margt er til fyrirmyndar en sérstaklega skal nefna hversu vel virðist hafa tekist til að virkja starfsmenn skólans til þátttöku í uppbyggingu hans og þróun. Áhersla er lögð á að taka á málum og innleiða nýjungar með því að prófa sig áfram og læra af umbótasinnuðu innra mati og fyrri reynslu.  Hlutverk stjórnenda er þá gjarnan að skapa starfsumhverfi sem örvar slík lærdóms- og þróunarferli.  Nefndinni sýnist vel hafa tekist til í þessum efnum hjá skólanum og lagði til að skólanum yrðu veitt sérstök hvatningarverðlaun við val á ríkistofnun til fyrirmyndar.  Tvennt vakti sérstaka athygli nefndarinnar. Annars vegar var það áhersla skólans á að höfða til breiðs hóps nemenda með fjölbreyttu námsframboði og veita þeim öflugan stuðning sem hvetur þá til dáða og undibýr undir frekara nám eða starf. Hins vegar er eftirtektarverð áherlsla skólans á að efla tengsl við aðila í umhverfi hans og fulltrúa atvinnulífsins í iðngreinum sem þar eru kenndar.
Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira