Frábær frammistaða hjá afreksnemendum

16/5/2014

  • Afreksnemendur

Nú nýverið var valinn landsliðshópur drengja U18 ára. Í þeim hóp á afreksíþróttasvið tvo drengi þá Kristján Örn Kristjánsson og Baldur Inga Agnarsson. Baldur er markmaður og hefur verið í hóp í leikjum meistaraflokks HK í OLÍS deild karla ásamt því að leika með 3. og 2. flokki. Þess má geta að Baldur er fæddur 1997 og því aðeins 17 ára á þessu ári.

Kristján, oftast kallaður Donni, spilar með meistaraflokki Fjölnis og 3ja flokki. Hægra meginn á vellinum enda örvhentur. Donni hefur leikið stórt hlutverk með meistaraflokki Fjölnis og verður fróðlegt að fylgjast með drengnum á næstu misserum.

Thea Imani var valin í landsliðshóp U20 ára.  Fylkisstúlkan efnilega Thea Imani, sem leikur með Fylki hefur vakið mikla athygli í vetur í efstu deild kvenna fyrir vasklega framgöngu. Hún hefur skorað 92 mörk í 20 leikjum í vetur án þess að vera vítaskytta liðs síns. Hún er örvhent og spilar hægri skyttu að jafnaði.  Þetta er frábær árangur að vera valin í landsliðshóp U20 því Thea er í raun gjaldgeng í U18 ára einnig.


Nemendur handboltans stóðu sig vel á bikarhelgi HSÍ í Laugardalshöll í lok febrúar. Þar unnu Hulda Dagsdóttir og liðsfélagar hennar í Fram sigur í 3.fl. kv. Hulda átti stórgóðan leik og skoraði 11 mörk og var valin leikmaður leiksins fyrir sína frammistöðu. 

Síðar um kvöldið spiluðu Valur og Afturelding til úrslita í 2. flokki. Þar lék annar nemandi afreksíþróttasviðs, Helgi Karl Guðjónsson leikmaður Vals vel og skoraði 3 mörk. Það er skemmst frá því að segja að Valur vann í æsispennandi framlengdum leik og bikarmeistararnir okkar því tveir!

Öllu þessu efnilega fólki er óskað til hamingju.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira