Karen Lind vann söngkeppnina
Söngkeppni Borgarholtsskóla var haldin fimmtudaginn 16. janúar sl. í Kaldalóni í Hörpunni.
Að þessu sinni voru 11 atriði skráð til leiks og var keppnin vel sótt af Borghyltingum.
Kynnar kvöldsins, þeir Hjörleifur Steinn Þórisson og Tómar Ingi Gunnarsson stóðu sig með stakri prýði.
Í dómnefndinni voru þau Matti Matt (Matthías Matthíasson), Agnes Björt Andradóttir (úr hljómsveitinni Sykur) og Emmsjé Gauti (Gauti Þeyr Másson). Þau unnu það erfiða verk að raða í fyrstu þrjú sætin. Þau voru ekki öfundsverð þar sem atriðin voru hvert öðru betra.
Leikar fóru svo að í 1. sæti varð Karen Lind Harðardóttir með lagið Closer eftir Kings of Leon, í 2. sæti Aron Hannes Emilsson með lagið Who's Loving You eftir Jackson 5 og í 3. sæti Kolfinna Þorgrímsdóttir með lagið Shelter eftir Birdy.
Dómnefndin útnefndi svo skemmtilegasta atriðið en það var atriði Antons Bergmanns og Friðriks Eiríkssonar sem fluttu One time.
Á meðan að dómnefnd var að störfum kom svo Steinar og söng 5 lög af plötunni sinni við góðar undirtektir viðstaddra.
Ljósmyndir með þessari frétt eru fengnar af síðu Nemendafélags Borgarholtsskóla á facebook.
Karen Lind Harðardóttir varð í 1. sæti.
Aron Hannes Emilsson varð í 2. sæti.
Kolfinna Þorgrímsdóttir varð í 3. sæti.
Atriði Antons Bergmanns og Friðriks Eiríkssonar var valið skemmtilegasta atriðið.