Borgarholtsskóli fær Umhverfisviðurkenningu Reykjavíkur

22/9/2005

Að þessu sinni bárust 13 tilnefningar og eftir mat á fyrirtækjunum komu fjögur þeirra sérstaklega til álita en það voru: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Borgarholtsskóli, Parlogis hf. og Plastprent hf. Fyrirtækin þóttu öll sýna lofsverða viðleitni í starfi að umhverfismálum. Þó skaraði Borgarholtsskóli fram úr.

Eitt helsta framlag skólans til umhverfismála er í formi menntunar ungmenna sem síðar munu starfa í atvinnugreinum sem geta haft í för með sér mengun, s.s. málmsmíði, bifreiðasmíði og bílamálun. Í náminu er lögð áhersla á að efla ábyrga afstöðu nemenda til umhverfisins og að temja þeim vinnubrögð sem geta komið í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið.

Þá þykir vinnuumhverfi nemenda og starfsmanna jafnt innan dyra sem utan til fyrirmyndar auk þess sem aðgengi fyrir fatlaða nemendur er til prýði.  Einnig eru öll efni til ræstingar vistvæn og lögum og reglum um efnanotkun og förgun spilliefna fylgt í hvívetna.   

Á heimasíðu Umhverfisstofu Reykjavíkurborgar má lesa nánar um veitingu viðurkenningarinnar.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira