Forseti Íslands í heimsókn
Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson og eiginkona hans Dorrit Moussaieff komu í heimsókn í Borgarholtsskóla í dag. Tilefni heimsóknarinnar er forvarnardagurinn sem haldinn er í dag. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands á hverju ári. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Forsetinn ræddi við nemendur í fyrirlestrasal skólans og tók við fyrirspurnum frá þeim. Að því loknu var forsetanum boðið að ganga í matsal og þiggja veitingar sem voru í anda heilsueflandi framhaldsskóla.