Frá hugmynd til veruleika

16/4/2013

  • Anton og Óttar taka við verðlaunum fyrir nýsköpunarhugmynd

Keppnisandinn sveif yfir vötnum í húsakynnum Borgarholtsskóla síðastliðinn laugardag þegar hópur framhaldsskólakennara atti kappi um bestu nýsköpunarhugmyndina. Samkeppnin var liður í námskeiði sem skipulagt er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og útskrifuðust fyrstu níu framhaldsskólakennararnir í kjölfar samkeppninnar.

Námskeiðið þótti takast einkar vel og almenn ánægja ríkti með það í hópi þátttakenda en verið var að kenna námskeiðið í fyrsta sinn í tilraunaskyni. Hópurinn samanstóð af sjö kennurum úr Borgarholtsskóla og tveimur kennurum úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Tilgangur námskeiðsins var að auka þekkingu kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og er hugmyndin að það gerist með því að þeir fari sjálfir í gegnum ferlið frá hugmynd til fullbúins viðskiptamódels og fái auk þess reynslu af frumgerðahönnun og smíði í Fab Lab-smiðju.

Eftir harða samkeppni urðu tveir kennarar jafnir að stigum og skipuðu 1.-2. sæti. Þau Anton Már Gylfason í Borgarholtsskóla fyrir skartgripalínu sem á sér dýraverndunarhugsjón og Gréta Mjöll Bjarnadóttir hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla fyrir fernuklemmu í umhverfisvænum tilgangi. Óttar Ólafsson Borgarholtsskóla vermdi svo þriðja sætið með hugmynd sinni að óróa fyrir hvalaskoðunarmarkaðinn. Aðrir þátttakendur frá Borgarholtsskóla voru Ásdís Kristindóttir, Gunnlaugur B. Ólafsson, Hafrún Eva Arnardóttir, Inga Jóhannsdóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson.

Þáttakendur á nýsköpunarnámskeiði 2013Útskriftahópurinn ásamt Rósu Gunnarsdóttur, forstöðumanni kennslusviðs HR,
og Jóhönnu Ingvardóttur, verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð

Námskeiðið er liður í þriggja ára þróunarverkefni um eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í íslenskum framhaldsskólum og er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Félags íslenskra framhaldsskóla og Félags íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Í þremur vinnulotum var farið efnislega í hugmyndafræði nýsköpunarmennta og frumkvöðlafræði ásamt þeim þáttum sem viðskiptaáætlun þarf að búa yfir. Farið var í heimsókn í Fab Lab-smiðju til Sauðárkróks þar sem kennararnir nutu handleiðslu starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við teikniforrit og frumgerðasmíð og loks voru kennararnir tilbúnir til að kynna viðskiptaáætlanir sínar í samkeppni sl. laugardag.

 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira