Hlaupið til styrktar skóla í Pakistan
Borgarholtsskóli stendur fyrir heilsu- og góðgerðahlaupi miðvikudaginn 10. apríl kl. 11:20. Safnað verður til starfsemi skólans í Jaranwala sem var byggður fyrir söfnunarfé Borgarholtsskóla fyrir nokkrum árum.
Hlaupinn er 8 km hringur um hverfið; einnig er leyfilegt að ganga eða hjóla þessa vegalengd. Nemendur og starfsfólk er hvatt til að taka þátt í góðri hreyfingu!
Það vantar stuðningsaðila fyrir 291 barn við skólann í Jaranwala í Pakistan en aðeins 95 af 386 börnum sem nú stunda nám í skólanum eru komin með stuðningsaðila. Þeir sem sjá sér fært að leggja þessu góða málefni lið geta haft samband við skrifstofu ABC í s. 414-0990, á abc@abc.is eða lagt inn á reikning 344-26-1000 (kt. 690688-1589). Munið að skrifa „Góðgerðahlaup BHS“ í dálkinn „Tilvísun“ eða „Skýring greiðslu“.
Árið 2006 söfnuðu nemendur og starfsfólk Borgarholtsskóla peningum með áheitum til að byggja skóla í Pakistan, í Jaranwala. Var þetta í tilefni af 10 ára afmæli Borgarholtsskóla. Peningum var safnað með ýmiss konar áheitum á afmælisárinu og á vordögum 2007 reis skólinn og var tekinn í notkun strax. Fjöldi kennara BHS og fjölskyldur nemenda gerðust stuðningsforeldrar nemenda skólans í Jaranwala.
Hér má lesa frétt frá árinu 2007 um opnun skólans í Jaranwala.
Á síðustu vikum hefur skólinn í Jaranwala verið í umræðunni vegna kynningar í lífsleiknihópum nýnema við Borgarholtsskóla. Er ánægjulegt að segja frá því að nánast undantekningalaust hafa nemendur áhuga á að styðja "skólann okkar" og varð það kveikjan að því að nú á næstu dögum munu Borghyltingar aftur efna til áheita á skólann í Jaranwala.