Samstarf um félagslegan stuðning
Á vor- og haustönn 2012 hefur Borgarholtsskóli tekið þátt í samstarfsverkefni með Rauða krossi Íslands og Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness. Verkefnið felst í því að nemendur Borgarholtsskóla geta gefið kost á sér sem sjálfboðaliðar í heimanámsaðstoð við grunnskólanemendur og fengið fyrir það einingar á námsferilinn sinn.
Markhópur verkefnisins eru börn á aldrinum 8 til 16 ára sem eru í þörf fyrir heimanámsaðstoð vegna tungumálaerfiðleika heima fyrir eða annarra erfiðleika á heimili sem valda því að þau fá ekki þá aðstoð við heimanám sem þau eru í þörf fyrir. Markmiðið er að börnin standi betur námslega í skólanum, að þau kynnist innbyrðis í hópnum, efli félagsþroska sinn og rjúfi félagalega einangrun þar sem það á við.
Undanfarnar annir hefur Borgarholtsskóli tekið þátt í öðru mikilvægu samstarfsverkefni í nærsamfélaginu. Samstarfsaðilar eru Miðgarður, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, ÍTR og Grafarvogskirkja. Markmið verkefnisins er að ná til félagslega einangraðra nýnema í skólanum, vinna með þeim í hóp í sjálfsstyrkingu, félagsfærni og almennum samskiptum til að sporna við brottfalli úr skólanum. Mikil ánægja hefur verið með verkefnið hjá þeim nemendum sem hafa tekið þátt og forráðamönnum þeirra.