Rappar um einelti
Rapparinn Gummzter úr Mosfellsbæ vonast til að nýtt lag hans, Í þínum sporum, hjálpi þeim sem hafa svipaða reynslu og hann. Lagið fjallar um einelti og er á plötunni Fullorðinn sem kemur út á morgun.
Hlusta á lagið: Í þínum sporum (YouTube).
Gummzter varð fyrir einelti í grunnskóla en segir að það hafi hætt í tíunda bekk þegar hann byrjaði í rappinu. Skilaboð hans til þeirra sem hafa verið eða eru í svipuðum sporum og hann eru „Ekki gefast upp!"
Þetta er önnur plata rapparans sem varð tvítugur í sumar og er nafnið Fullorðinn því vel við hæfi. Platan verður fáanleg ókeypis á síðu hans Gummzter.com. Einnig verður hægt að kaupa hana og styrkja þar með listamanninn á Tonlist.is og Gogoyoko.com.
Gummzter, öðru nafni Guðmundur Snorri Sigurðarson, er nemi í margmiðlunarhönnun við Borgarholtsskóla.