Útskriftarhátíð vorið 2012
Laugardaginn 19. maí voru brautskráðir frá Borgarholtsskóla 189 nemendur af ýmsum brautum. Þetta var sextánda starfsár skólans. 1481 nemandi stundaði nám við skólann á vorönn. Þar af voru 1225 í dagskóla, 172 í dreifnámi og 84 í kvöldskóla og síðdegisnámi. Starfsemi skólans er fjölbreytt, kennarar taka þátt í evrópskum samstarfsverkefnum og nemendur hafa náð góðum árangri í samkeppnum meðal framhaldsskólanema.
Kennslustjórar afhentu nemendum sínum útskriftarskírteini. Með þeim fylgdi birkiplanta og ósk um að hún verði gróðursett af alúð svo hún megi vaxa og dafna eins og þau sjálf í framtíðinni. Afhending plöntunnar er hefð sem Eygló heitin Eyjólfsdóttir, fyrsti skólameistari Borgarholtsskóla, kom á.
25 nemendur útskrifuðust af þjónustubrautum, þ.e. félagsliðar, aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum, leikskólaliðar, félags- og tómstundaliðar og af verslunarbraut.
56 nemendur luku bóknámi til stúdentsprófs af félagsfræðabraut, málabraut, náttúrufræðibraut og viðskipta- og hagfræðibraut.
7 nemendur luku námi af sérnámsbraut.
27 nemendur luku námi af lista- og fjölmiðlasviði.
51 nemandi lauk námi af bílgreinasviði.
16 nemendur luku námi af málm- og véltæknisviði.
Margir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur og félagsstörf. Velunnarar Borgarholtsskóla; Altis, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Kanadíska sendiráðið og Félag vélstjóra og véltæknimanna veittu einnig verðlaun.
Ester Alda Sæmundsdóttir á náttúrufræðibraut varð dúx skóla með 8,96 í meðaleinkunn. Hún var á afreksíþróttasviði en hún spilar körfubolta með meistaraflokki Fjölnis. Ester fékk viðurkenningu frá Háskólanum í Reykjavík.
Þegar afhendingu skírteina var lokið fóru útskriftarhúfur í fjölbreyttum litum á loft. Í ræðu sinni til útskriftarnema benti Bryndís Sigurjónsdóttir, skólameistari, útskriftarnemendum á að þeir skyldu vera gerendur í lífi sínu og fylgja draumum sínum. Hamingjan væri valkostur sem þyrfti að rækta. „Hafið hugrekki til að lifa lífinu eins og þið sjálf viljið,“ sagði Bryndís, „en ekki eins og aðrir ætlast til af ykkur.“
Svanhildur Björk Gísladóttir rennismiður flutti ræðu útskriftarnema og hrósaði skólanum og kennslunni. Hún sagði að þrátt fyrir nokkra togstreitu milli bóknáms og verknáms geti þessar greinar ekki án hvor annarar verið. Hún stefnir á að klára tæknifræði eða verkfræði eftir að hafa lokið viðbótarnám til stúdentsprófs.
Narfi Ísak Geirsson flutti ávarp fyrir hönd 10 ára stúdenta. Hann sagði frá því þegar hann hóf nám við Borgarholtsskóla eftir grunnskóla og fékk aftur sjáfstraust í eigin námi þrátt fyrir lesblindu. Í dag er hann kennari við Norðlingaskóla.
Á meðan útskriftarnemar sátu fyrir á hópmynd var aðstandendum boðið upp á kaffi.
Sjá stærri mynd af útskriftarhópnum á vorönn 2012
Hópmyndin er tekin af Jóni Svavarssyni. Hægt er að nálgast fleiri myndir hjá Motiv.