Bókasafnsdagurinn 17. apríl 2012
Bókasafnsdagurinn er haldinn hátíðlegur um allt land í dag. Tilgangur dagsins er að minna fólkið í landinu á mikilvægi bókasafnanna og einnig að gera þetta að skemmtilegum degi fyrir þá sem vinna á söfnunum.
Yfirskrift dagsins er: Lestur er bestur.
Við á bókasafni Borgarholtsskóla vekjum athygli á deginum með því að stilla upp áhugaverðum bókum fyrir nemendur.
Markmiðið er að hvetja unga fólkið til yndislesturs bæði á íslensku og ensku.
Öll þáttökubókasöfn fengu veggspjöld, bókamerki og blöðrur til að auglýsa daginn. Einnig er fjallað um daginn í fjölmiðlum, bæði í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi.
Í tilefni að bókasafnsdeginum efndi Upplýsing til stuttmyndasamkeppni um lestur og bókasöfn meðal framhaldskólanema. Atli Arnarsson og Gísli Gíslason unnu keppnina með myndinni „Sveitalestur“. Hér má horfa á myndbandið.
Einnig var efnt til ljósmyndasamkeppni. Sigurmyndina í þeirri keppni má sjá hér fyrir neðan en ljósmyndari er Baldvin Þeyr Pétursson.

Starfsfólk bókasafna hefur valið 100 bestu barna- og unglingabækurnar. Þær máttu bæði vera frumsamdar á íslensku eða þýddar. Niðurstaðan varð veggspjald með þeim 100 titlum sem urðu fyrir valinu sem bestu barna- og unglingabækurnar.
Bókasöfn gegna mikilvægu hlutverki sem miðstöð fræðslu og þekkingar, þau veita aðgengi að bókmenntum, tón- og myndlistarefni og þar má fá aðstoð við upplýsingaöflun og gagnaleit. Almennings- og skólasöfn eru auk þess nokkurs konar samkomuhús þar sem fólk getur dvalið löngum stundum. Bókasöfn skipta sköpum fyrir lestraruppeldi og bókmenningu í landinu. Því má segja með sanni að lestur sé bestur á bókasöfnunum.
Vorið 2011 völdu starfsmenn bókasafna bestu íslensku bókina. Nánari upplýsingar um daginn má finna á vef Upplýsingar - Félagi bókasafns- og upplýsingafræða.