Jafnréttisdagur og klámvæðing

17/3/2012

  • Klámvæðing

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars var boðið upp á ýmsa viðburði víða um land. Meðal annars á vegum Jafnréttisstofu. Þeir sem vilja fræðast um sögu dagsins geta farið á vef Kvennasögusafns.

Klámvæðing, sem er hluti af jafnréttismálum, hefur einnig verið í umræðunni og hér fyrir neðan verða tekin tvö dæmi.

Kynferðisofbeldi í samböndum

Þann 12. mars var umfjöllun um klám og kynferðisofbeldi í samböndum í þættinum Ísland í dag á Stöð2. Í þættinum er rætt við stúlku og móður hennar. Inn í viðtalið var fléttað viðhorfi Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur sem hefur kennt jafnréttisáfanga við Borgarholtsskóla.

Móðir unglingsstúlku segir að nauðganir í samböndum séu staðreynd. Dóttir hennar varð fyrir þessu ofbeldi í fjögur ár frá hendi kærasta síns þegar hún var 14-18 ára. Kærastinn horfði mikið á klámefni og stúlkan varð hræddari eftir því sem klámefnið sem hann horfði á varð grófara en samhliða því varð ofbeldið gegn stúlkunni grófara. Kærastinn þvingaði stúlkuna til að fara langt yfir hennar mörk í kynlífi. Á þessum tíma fann stúlkan fyrir líkamlegum og andlegum erfiðleikum.

Þeim fer fjölgandi sem leita til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis í samböndum. Klámvæðingu er um að kenna segir Hanna Björg. Útlitsdýrkun og pressa í kynlífi laskar sjálfsmynd stúlkna. Hún segir að íslenskir krakkar byrji að horfa á klám 11-12 ára.

Hanna hefur boðið upp á  valáfanga í kynjafræði við Borgarholtsskóla sem hefur verið vinsæll meðal nemenda. Hanna berst fyrir því að kynjafræði verði kennd í öllum grunnskólum landsins.  

Hér má hlusta á viðtalið.

Klámvæðing er kynferðisleg áreitni

Þann 2. mars gáfu Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands út fræðslubæklingurinn „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni". Höfundur bæklingsins er Thomas Brorsen Smidt, MA-nemi í kynjafræði við HÍ.

Bæklingurinn, sem er á íslensku og ensku, varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu. Bæklingurinn gagnast öllum sem vilja vinna gegn klámvæðingu og kynferðislegri áreitni.

Þessi umræða opnar vonandi augu allra fyrir þessum vanda.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira