Fór á Evrópuþing ungmenna
Þann 7. nóvember fór fram fyrirspurnaþing fyrir ungt fólk með sérþarfir. Þingið var haldið hjá Evrópuþinginu í Brussel en það var Evrópumiðstöðin fyrir þróun í sérkennslu sem stóð fyrir atburðinum. Öll aðildarlönd miðstöðvarinnar tóku þátt en hvert land gat tilnefnt 3 ungmenni til að sitja þingið. Þema þingsins var nám án aðgreiningar (Young views on inclusive education).
Dagur Jóhannsson var einn þriggja þátttakenda frá Íslandi en hann er nemendi á sérnámsbraut Borgarholtsskóla. Dagur var í vinnuhópi sem fjallaði um starfsnám (vocational education). 90 ungmenni, þar af 60 með sérþarfir, létu álit sitt og reynslu í ljós á þinginu. Þátttakendur voru frá 27 löndum. Aðrir þátttakendur frá Íslandi voru Ásgerður Heimisdóttir og Þórður Jónsson.
Á myndinni hér fyrir neðan er Dagur ásamt félögum frá öðrum Evrópulöndum.