Útskriftarhátíð Borgarholtsskóla

21/5/2011

  • Húfur komnar upp

157 nemendur útskrifuðust í dag á þessu 15. starfsári skólans. Athöfnin fór fram í sal Borgarholtsskóla og það var Skólahljómsveit Mosfellsbæjar sem tók á móti gestum í anddyri með ljúfum tónum. Sönghópur Borgarholtsskóla flutti einnig nokkur lög á hátíðinni við góðar undirtektir.


Bryndís Sigurjónsdóttir skólameistariAthöfnin hófst með ræðu Bryndísar Sigurjónsdóttur skólameistara sem stiklaði á stóru um það helsta í skólastarfi vetrarins. Innritaðir nemendur í vorbyrjun voru 1132 í dagskóla, 60 í kvöldskóla og síðdegisnámi  og 139 dreifnámi (fjarnámi með staðbundnum lotum). Fjarnámið er einkum á starfsbrautum og í listnámi. Að öllu samanlögðu innritaðist 1321 nemandi í nám af einhverju tagi við skólann á þessari önn en á haustönn voru þeir 1423 en nemendur eru alltaf færri á vorönn.  

Skólinn er eftirsóttur og við höfum lagt okkur fram við að mæta þörfum sem flestra nemenda og hlúa vel að bóknámi jafnt sem verknámi. Við erum stöðugt vakandi fyrir nýjum tækifærum og tengslum við atvinnulífið.Útskrift vor 2011Útskrift vor 2011

Ef litið er á nemendahópinn í dagskóla má segja að tæpur þriðjungur nemenda stundi nám í iðngreinum (bíl-, málm- og véltæknigreinum). Rúmur þriðjungur leggur stund á bóknám til stúdentsprófs (félagsfræða-, mála-, náttúrufræði-, viðskipta- og hagfræðibraut) og þriðjungur er í margmiðlunarhönnun og fjölmiðlatækni á listnámsbraut, starfsnámi á sviði verslunar og félagsþjónustu, á sérnámsbraut fyrir fatlaða nemendur og almennri námsbraut fyrir nemendur sem þurfa að styrkja undirstöðu sína. Grunnskólanemar  hafa einnig tekið valgreinar í málmiðngreinum.

SönghópurNemendur skólans hafa vakið athygli á mörgum sviðum á skólaárinu. Æfingafyrirtæki á verslunarbraut fékk verðlaun í samkeppni á vegum Ungra frumkvöðla. Gettu betur spurningalið skólans komst í átt liða úrslit í sjónvarpi. Leiklistarnemendur settu upp leikritið Beetlejuice. Nemendur á sérnámsbraut héldu stuttmyndakeppni fyrir starfsbrautir framhaldsskóla. Erlent samstarf blómstrar með ferðum listnáms- og þýskunemenda til Evrópu. Skólinn starfrækir afreksíþróttasvið og þar eru Íslandsmeistarar í ýmsum greinum.

Kappar af afreksíþróttasviði

Kennslustjórar afhentu nemendum skírteini um námslok. Útskriftarhópurinn var fjölbreyttur bæði hvað varðar námssvið og aldur. Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur í verklegum og bóklegum greinum. Einnig fyrir íþróttaástundum og félagsstörf. Í fyrsta sinn voru útskrifaðir nemendur sem stunda nám á afreksíþróttasviði samhliði bóknámi til stúdentsprófs. Það voru Arnþór Freyr Guðmundsson og Ægir Þór Steinarsson. Harpa Ósk Jóhannesdóttir fékk verðlaun fyrir hæstu einkunn til stúdentsprófs.

Húfur komnar upp

Þegar nemendur höfðu sett upp útskriftarhúfur ávarpaði skólameistari hópinn. Hún minnti nemendur á að menntun gefi þeim frelsi til að velja og vitnaði í orð Ben-Shahar úr bókinni Meiri hamingja þar sem segir: Veldu það sem þig langar virkilega mikið til að gera og stefndu þangað.

Elsa Jónsdóttir stúdent af listnámsbraut flutti ávarp útskriftarnemenda og sagði að Borgarholtsskóli hefði staðið rúmlega undir þeim væntingum sem hún gerði til hans. Sigursteinn Sigurðsson flutti ávarp 10 ára stúdents. Hann sagði að tíminn í skólanum hefði verið einstakur en hann er að klára mastersnám í arkitektúr frá virtum háskóla í Bretlandi.

Elsa Jónsdóttir ræða útskriftarnemaSigursteinn Sigurðsson 10 ára stúdent

Á meðan nýútskrifaðir nemendur sátu fyrir á hópmynd í bílaskála var aðstandendum boðið að þiggja kaffisopa. Hér fyrir neðan má sjá myndir af nokkrum verðlaunahöfum og hópmynd.

Viðurkenning í bóknámiViðurkenning í málmiðngreinumVerðlaunaafhending
Viðurkenning félagsliðaViðurkenning á sérnámsbrautViðurkenning í bíliðngreinumÚtskriftarhópur vor 2011
Skoða stærri útskriftarmynd.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira