Afreksnemendur á Ólympíuhátíð
Þrír nemendur af afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla á skíðum eru staddir í Liberec í Tékklandi þar sem þeir taka þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Hátíðin er haldin fjórða hvert ár að sumri og fjórða hvert ár að vetri.

Einar Kristinn Kristgeirsson og Sturla Snær Snorrason keppa í svigi. Einar Kristinn endaði í 19 sæti af 101 keppanda en 46 luku keppni. Sturlu Snær hlekktist eitthvað á í fyrri ferð og lauk ekki seinni ferð. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir hafnaði í 45. sæti af 74 keppendum í stórsvigi á fyrsta degi keppninnar sem hófst á þriðjudag.
Ólympíuhátíðin er einn af stærstu íþróttaviðburðum ungmenna 14-18 ára. Fyrir íþróttafólk á þessum aldri er hátíðin jafn mikilvæg í huga þeirra og sjálfir Ólympíuleikarnir. Umgjörð er öll hin besta og mikill heiður fyrir skólann að eiga þrjá mjög svo verðuga fulltrúa á mótinu.
Íris Björk Eysteinsdóttir íþróttakennari skrifar