Listnámsnemendur í Finnlandi

9/11/2010

  • Bryndís, Hallur, Sara, Hildur og Arna

Nokkrir nemendur af listnámsbraut hafa haldið til Finnlands í starfsnám og munu dvelja í fjórar vikur. Auglýst var eftir umsóknum og þau sem voru valin að þessu sinni voru; Hallur Víkingur Þorsteinsson og Hildur Björk Scheving en þau fara til Outokumpu í Norður Karelia héraði og svo Arna Snjólaug Birgisdóttir og Sara Rúnarsdóttir sem fara til Nakkila í Statakunta héraði. Starfsnámið er hluti af viðamiklu verkefni ArtECult III sem er samvinnuverkefni fjölda skóla um alla Evrópu og fá nemendur námsstyrk (mannaskipti) frá Leonardó menntaáætlun Evrópusambandsins sem dugar fyrir ferðum og uppihaldi.

Borgarholtsskóli er þátttakandi í nokkrum öðrum alþjóðlegum verkefnum sem öll eru styrkt af Leonardó. Nú í haust lýkur SAMPO sem var samvinuverkefni þriggja skóla (Ísland, Eistland og Finnland) og byggði á samvinnu nemenda skólanna. SOFIA er yfirfærsluverkefni þar sem kennsluaðferðafræði í fjarnámi, sem hefur verið þróuð í CNA-CEFAG í París, var útfærð í skólum á Íslandi og á Spáni. Vekefninu var stýrt af Fræðslusetrinu Iðunni. IESTEK er nýjasta verkefnið sem er samvinnuverkefni Finna, Hollendinga, Spánverja og Borgarholtsskóla í frumkvöðlafræðum. Munu bæði kennarar, starfsmenn og nemendur taka þátt í verkefninu.

Nýverið fékk starfsnámsverkefni Borgarholtsskóla tilnefningu frá Leonardó sem fyrirmyndaverkefni fyrir árin 2007-2008. Verkefnið var með þeim fyrstu sem listnámsbraut BHS tók þátt í. Í því fólst að tveir nemendur, þær Árún Ágústdóttir og Gunnhildur Þorkelsdóttir, fóru í starfsnám til Tartu Art School í Eistlandi í 6 vikur. Gæðaviðurkenningarnar verða veittar á afmælishátið Menntaáætlunnar ESB sem haldin verður í Ráðhúsinu 25. nóvember.

Á ljósmyndinni eru Finnlandsfararnir Hallur, Sara, Hildur og Arna ásamt Bryndísi skólameistara.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira