Fjölbreytt verkefni hjá nemendum

8/11/2010

  • Fjölmiðlatækni

Lokaársnemendur í fjölmiðlatækni á listnámsbraut hafa verið iðnir við verkefni utan skóla á önninni. Mánaðarlega eru beinar útsendingar frá leiksýningunni „Örverk um áráttur, og kendir og kenjar“ sem Áhugaleikhús atvinnumanna setur upp með Netleikhúsinu í Hugmyndahúsi háskólanna, Útgerðinni, á Granda. Nemendur sjá bæði um beina útsendingu, upptökur og svo klippingu á leiksýningunum sem skoða má á vefnum. Leikverkið Herbergi 408 sem Netleikhúsið setti upp og nemendur BHS tóku þátt í var tilnefnt til Prix Europa 2010 verðlaunahátíðarinnar sem fram fór í Berlín nýverið.

Fjölmiðlatækni

Í fimmta sinn í haust tóku nemendur þátt í RIFF Festival TV á Reykjavík International Film Festival. Nemendurnir sáu um að taka upp, klippa og setja á netið fréttir af því helsta sem var á döfinni á kvikmyndahátíðinni, hittu alla helstu gestina og tóku þátt í stærstu og minnstu viðburðunum. Nemendurnir stóðu sig mjög vel að vanda en afraksturinn má sjá á vef kvikmyndahátíðarinnar.

Á síðasta ári tóku nemendur í fjölmiðlatækni upp þrjú leikrit í Þjóðleikhúsinu; Utangátta í Kassanum, Brennuvargana á Stóra sviðinu og barnaleikriðið Sindra silfurfisk. Verkefnin heppnuðust vel og bauð Þjóðleikhúsið okkur til frekara samstarfs en til stendur að taka upp nokkur leikrit á þessu leikári og hugsanlega önnur verkefni.

Fjölmiðlatækni


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira