Ferð starfsfólks til Toronto
Hópur 59 starfsmanna/kennara fór í fimm daga fræðslu- og skemmtiferð til Kanada í hausthléi skólans dagana 1.-5. október.
Hluti hópsins bauð mökum sínum með í ferðina svo heildarfjöldi þeirra sem tók flugið vestur yfir haf var 72.
Það voru frjálsir dagar á laugardag og sunnudag og nýttu þá margir til að ferðast að Niagara fossum, sumir fóru í útsýnisferð um borgina með strætisvagni, hjóluðu út í Toronto eyju í Ontario vatni eða fóru upp í CN turninn sem er hæsta bygging Ameríku. Einnig gerðu margir góð kaup í verslunum borgarinnar.
Eftir helgina tók alvaran við en starfsmönnum hafði verið skipt í 9 hópa. Þeir fóru í jafnmarga skóla víðsvegar um borgina á mánaudag og þriðjudag og skoðuðu starfsemi þeirra. Skólar þessir voru misfjölmennir og lögðu áherslu á mismunandi kennsluhætti sem réðust nokkuð af nemendahópnum.
Skólarnir voru svokallaðir "high schools" sem kenna 14-18 ára nemendum. Flestir skólarnir voru blandaðir en aðrir voru eingöngu fyrir einstaka hópa s.s. innflytjendur eða nemendur sem þurftu á sérkennslu að halda. Athygli vakti hversu vel ráðuneyti fræðslumála í fylkinu stóð að námskrárgerð, gerð námsefnis og gátlista sem skólastjórnendur og kennarar gátu nýtt sér í starfi. Lögð er áhersla á nemendur kynnist atvinnulífinu með starfsþjálfun samhliða skólanámi.
Vel var tekið á móti hópunum í skólunum en það var MaryAnne Regan, aðstoðarskólastjóri hjá Toronto District Secondary School, sem sá um skipulagningu skólaheimsóknanna.
Á mánudagskvöldið hlýddum við á fyrirlestur um skólakerfið í Ontario fylki. Athygli vakti að ekki færri en fjórir háttsettir starfsmenn ráðuneytis menntamála í Ontario-fylki heiðruðu Borghyltinga með nærveru sinni. Að fyrirlestrunum loknum var snæddur sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.
Flugið heim aðfararnótt miðvikudags tók fimm klukkustundir en frá Keflavík var tekin rúta og mætt beint til vinnu og kennslu í Borgarholtsskóla. Þá nutu þeir góðs af hvíldinni sem gátu sofið í flugvélinni á heimleiðinni.
Það var mikil ánægja með ferðina og Antoni og Guðnýju Maríu, sem voru í ferðanefndinni, eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra störf.
Vefur Ontario Ministry of Education.