Útskriftarhátíð vorannar 2010

21/5/2010

  • Útskrift vor 2010

182 nemendur voru brautskráðir frá Borgarholtsskóla í dag á þessu 14. starfsári skólans. Heildarfjöldi nemenda sem innritaðist í skólann á vorönn var 1299 en þeir stunduðu nám í dagskóla, dreifnámi, síðdegisnámi og kvöldskóla.

Útskriftarhátíðin var með hefðbundnu sniði. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum með ljúfum tónum og sönghópur Borgarholtsskóla undir stjórn Braga Þórs Valssonar flutti tvö lög við athöfnina.

Dagskráin hófst með annál Bryndísar Sigurjónsdóttur skólameistara sem fór yfir það helsta sem hefur staðið upp úr í skólastarfinu á önninni. Hún var stolt yfir hversu vel nemendur hafa staðið sig í hinum ýmsu keppnum. Má þar nefna sigur í Söngkeppni framhaldsskólanna, uppsetningu leikfélagsins á söngleiknum Lísu í Undralandi og verðlaun í norrænni stuttmyndasamkeppni. Hópar nemenda og kennara hafa farið í kynnisferðir til annarra landa og verið virkir þátttakendur í ýmsum samvinnuverkefnum með skólum erlendis. Tveir útskriftarnemar af listnámsbraut tóku einmitt þátt í útskriftarathöfninni í gegnum netsamband við Finnland þar sem þeir vinna að verkefni milli þriggja landa.

Kennslustjórar afhentu nemendum prófskírteini fyrir nám á eftirtöldum sviðum: bíliðngreinar, bóknám til stúdentsprófs, starfsnámsbrautir (félagsliðar, aðstoðarfólk í skólum, verslunarbraut), lista- og fjölmiðlasvið, málm- og véltæknigreinar og starfsbraut. Hver nemandi fékk afhenta birkiplöntu með skírteininu.

Gunnar Hauksson stúdent af viðskipta- og hagfræðibraut fékk hæstu meðaleinkunn nemenda í hópnum. Fjölmargir aðrir nemendur fengu verðlaun frá skólanum fyrir góðan árangur í ýmsum greinum, bæði bóklegum og verklegum greinum en einnig íþróttum. VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna, SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu og Félag íslenskra félagsliða veittu einnig viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.

Eftir afhendingu prófskírteina og verðlauna fóru húfur útskriftarnemenda á loft. Skólameistari vitnaði í bók Tal Ben-Shahar í ávarpi sínu til útskriftarnemenda og sagði að fólk sem setur sér markmið sé líklegra til að njóta velgengi. Hún sagði nemendur standa á tímamótum og til að setja sér markmið þurfi viljastyrk og sjálfsaga. Hún hvatti nemendur til að rækta sig sjálf, vera bjartsýn  og vonaði að draumar þeirra rættust.

Viktoría Birgisdóttir flutti ávarp útskriftarnema. Hún sagði að námið við skólann hefði verið fjölbreytt og skemmtilegt að vonaði einnig að farmtíðin yrði björt og skemmtileg. Ingólfs Sverrisson hjá Samtökum iðnaðarins, sem einnig situr í skólanefnd Borgarholtsskóla, ávarpaði einnig samkomuna. Að því loknu tók við myndataka og kaffi.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá athöfninni.
Útskriftarhópur á vorönn 2010Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010
Útskrift vor 2010


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira