Leonardo samstarf

3/3/2010

  • Nemendur frá Eistlandi

Þátttaka Borgarholtsskóla í ArtECult III mannaskiptaverkefninu kom til framkvæmda í vikunni þegar við sendum tvo af okkar nemendum - Ágústu Snorradóttur og Elsu Jónsdóttur - til mánaðardvalar í SKTO Satakunta Arts and Crafts Institut í Nakkila í Finnlandi sem er að mörgu leyti með svipaða deild og okkar.

1. mars kom svo til landsins fjögurra manna hópur - skólastjóri, kennarar og fulltrúi starfsgreinaráðs frá Tartu í Eistlandi - sem dvelja hér á landi í viku til að kynna sér land, þjóð, skóla og stofnanir og til að fylgja tveimur af sínum nemendum úr hlaði sem munu stunda nám á brautinni hjá okkur í 2 mánuði eða þar til í lok apríl. Hér er einnig um ArtECult III verkefni að ræða.

Nemendurnir, hvorttveggja stelpur, heita  Madli Laursoo, nemendi á lokaári, og Meeta Eliisa Veigel, nemandi á þriðja ári í útstillinga- og sýningahönnun. Meðan á dvölinni stendur gista þær í listamannaíbúð á Korpúlfsstöðum.  Með þessari frétt er mynd af stúlkunum.

Nemendaskipti sem þessi ganga þannig fyrir sig að búin er til stundatafla í samræmi við áhugamál og námsstig hvers og eins en nemendinn gengur síðan inn í áfangana og reynir að fóta sig í því sem verið er að gera. Vanti undanfara eða tæknilega þekkingu er reynt að leysa úr því m.a. með því að fá aðra nemendur til að aðstoða. Yfirleitt veljast einungis duglegir og sterkir nemendur  í verkefni sem þessi. Það sama gildir að sjálfsögðu um okkar nemendur í Finnlandi, þær ganga inn í það prógram sem hentar þeim í Finnlandi. Þeir skólar sem við erum í samstarfi við (net skóla í Finnlandi, Eistlandi, Hollandi, Þýskalandi og fleiri löndum) hafa áralanga reynslu í samstarfi sem þessu sem er mikilvægt fyrir okkur sem erum að stíga okkar fyrstu skref á þessu sviði. 

Í dag fundaði kennarahópurinn frá Eistlandi með Ara kennslustjóra um samskipti skólanna, þau kíktu á Korpúlfsstaði og skoðuðu Borgarholtsskóla auk þess sem rætt var um væntanlegt nám nemendanna tveggja. 

Á næstu dögum munu kennararnir heimsækja söfn í Reykjavík, skella sér Gullna hringinn, heimsækja skóla og stofnanir en á föstudaginn munu þau kynna sinn skóla í stofu 224 kl. 12-12:40 fyrir nemendum og kennurum. Tveir nemendur frá okkur munu fara til Tartu á næstu önn þannig að þetta er gott tækifæri fyrir væntanlega umsækjendur að kynnast skólanum.

Tartu Art School er lítill, klassískur og áhugaverður myndlistarskóli í næststærstu borg Eistlands - Tartu - sem byggir á afar sterkri myndlistar- og hönnunarhefð. 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira