Útskrift í maí 2005

150 nemendur voru útskrifaðir frá skólanum

23/5/2005

Laugardaginn 21. maí voru útskrifaðir 150 nemendur frá Borgarholtsskóla af mörgum brautum og ýmist úr dagskóla, dreifnámi, síðdegisnámi eða kvöldskóla. Þetta var 9. starfsár skólans sem er orðinn fullsetinn. Síðastliðið haust voru innritaðir um 1300 nemendur í skólann; 1060 í dagskóla, 180 í kvöldskóla og síðdegisnám og 50 í dreifnám. Nemendahópurinn skiptist nokkuð jafnt í þrjá hluta: nemendur í iðngreinum, nemendur í bóknámi, nemendur í starfsnámi og öðrum brautum sem teljast til nýjunga í skólastarfi og Borgarholtsskóli tók fyrstur upp. Þar má nefna almenna námsbraut ásamt upplýsinga- og fjölmiðlabraut. Stefnt er að svipaðri skiptingu nemendahópsins í framtíðinni. Skólinn er í góðu samstarfi við atvinnulífið og önnur skólastig á mörgum sviðum.

Nú voru í fyrsta sinn útskrifaðir nemendur af námsbraut fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum en kennsla fór fram síðdegis. Skiptust útskriftarnemar þannig: 19 úr bíliðngreinum, 31 af bóknámsbrautum, 4 af sérnámsbraut, 24 af félagsliðabraut, 16 af braut fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum, 7 af verslunarbraut, 16 af listnámsbraut, 8 af upplýsinga- og fjölmiðlabraut og 23 úr málm- og véltæknigreinum. Fjölmargir nemendur fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur og félagsstörf. Katrín Sigurbjörg Sveinsdóttir nemandi af listnámsbraut var með hæsta meðaleinkunn. Ræðumenn útskriftarnemenda voru Gunnar Eiríksson af málm- og véltæknisviði og Bryndís Þorsteinsdóttir stuðningsfulltrúi. Guðfinna Bjarnadóttir rektor Háskólans í Reykjavík flutti einnig ávarp.

Í ræðu sinni til útskriftarnema fjallaði Ólafur skólameistari um skólamenninguna og vonaðist til að hún hefði mótað nemendur á jákvæðan hátt. Skólinn legði ekki aðeins til menntun heldur einnig félagslegan og tilfinningalegan þroska sem yrði gott veganesti til áframhaldandi náms og starfa.

Útskriftarhópur í maí 2005

Bóknámsnemendur við útskrift Aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum við útskrift Bílgreinanemar við útskrift Bryndís, Guðfinna og Ólafur Katrín Sigurbjörg Sveinsdóttir fékk hæsta meðaleinkunn Húfurnar komnar upp.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira