Nemendur í BHS tóku þátt í RIFF
Nemendur í kvikmyndanámi á listnámsbraut Borgarholtsskóla tóku þátt í Alþjóðlegrikvikmyndahátíð í Reykjavík eða RIFF sem nú er nýlokið. Hafa nemendur verið þátttakendur í svokölluðu RIFF-TV allt frá 2005 en þátttaka nemenda felst í því að taka upp og klippa stutt innslög um hátíðina og einnig sjá nemendur um að taka upp og streyma í beinum útsendingum svokallaða Masterclassa sem eru pallborðsumræður með heiðursgestum hátíðarinnar sem í ár voru Darren Aronofsky, Alejandro Jodorowsky og Deepa Mehta.
Vinnuaðstaða var í Setri skapandi greina við Hlemm sem er rekið af Nýsköpunarmiðstöð og var þar bæði ritstjórn og klippiaðstaða. Klippt var og unnið myrkrana á milli innan um aðra frumkvöðla. Kvikmyndanemendur í Fjölbraut í Ármúla undir stjórn Þórs Elís Pálssonar tóku einnig þátt og Hallur Örn Árnason starfsmaður RIFF verkefnastýrði RIFF-TV í ár.
Þátttakan í RIFF er mikil vígsla fyrir nemendur sem fá að kynnast fremstu kvikmyndagerðarmönnum samtímans og verkum þeirra. Starfsnám á vettvangi veldur röskun á hefðbundinni kennslu þar sem nemendur þurfa að taka upp og klippa á skólatíma þótt mikill hluti vinnunnar fari fram á kvöldin og um helgar. Hákon Már Oddsson kvikmyndakennari var tengiliður Borgarholtsskóla við RIFF og stýrði skipulagningu og vinnu nemendanna. Afraksturinn má sjá á RIFF-TV .
Fleiri myndir má sjá á facebook síðu skólans .