Nemendur á hönnunarsýningu
Nemendur í nýsköpun og frumkvöðlafræði fóru á sýningu um vöruhönnun á Kjarvalsstöðum. Vöruhönnuðir fást við að búa til vörur og skapa upplifun. Þeir greina þörf og tækifæri auk þess sem þættir eins og jafnrétti, umhverfi o.fl. hafa áhrif á efnisval og útfærslu. Á sýningunni voru samankomin nokkur framúrskarandi verkefni sem endurspegla ólíka nálgun vöruhönnuða að viðfangsefnum sínum. Henni var ætlað að veita innsýn í helstu strauma og stefnur í vöruhönnun á Íslandi á síðustu árum.
Áherslan á sýningunni var á handverk, efnisrannsóknir, fjöldaframleiðslu, upplifun, hreyfanleika og staðbundna framleiðslu. Fyrir utan að sýna fjölbreytileika vöruhönnunar endurspeglar sýningin hvernig hægt er að nýta krafta skapandi hugsunar og frumkvæðis við úrlausn samfélagslegra viðfangsefna.