Nemandi skólans hlýtur viðurkenningu

4/2/2022 Félagsvirkni– og uppeldissvið

  • Sigurdur-Thorsteinn

Á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem haldinn var þann 3. febrúar sl., hlaut nemandi skólans, Sigurður Þorsteinn Guðmundsson, viðurkenningu fyrir að vera fyrirmynd í námi fullorðinna.

Sigurður stundar nú nám á félagsliðabraut í dreifnámi en hafði áður farið í gegn um raunfærnimat í faginu á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands sem staðsett er í heimabæ hans, Akranesi. Leið Sigurðar að markinu var um margt óhefðbundin; hann fékk undanþágu til að undirgangast raunfærnimatið þar sem hann hafði ekki lokið tilskildum starfstíma við fagið. Undanþágan var veitt vegna persónulegrar reynslu Sigurðar, en tvö af fjórum börnum hans þurfa sértæka aðstoð við daglegt líf. Gekk honum það vel í raunfærnimatinu að hann fékk metna að fullu þá áfanga sem liggja til grundvallar við matið.

Saga Sigurðar er líka athyglisverð vegna þess að hann er einn af þeim sem í gegn um tíðina hafa af ýmsum ástæðum upplifað höfnun og vanmátt í hinu formlega skólakerfi. Í tilfelli Sigurðar voru þær að hans sögn ADHD og vandkvæði við lestur. Í námi sínu við Borgarholtsskóla hefur hann nýtt sér hljóðbækur auk þess sem hann segir kennara hafa verið duglega við að veita honum aðstoð og uppbyggilegar ráðleggingar við námið.

Sigurði er óskað innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Sjá nánar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira