Menntamálaráðherra í heimsókn

6/5/2020

  • Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra
  • Ársæll og Lilja virða fyrir sér listaverk unnið af fyrrverandi nemanda

Miðvikudaginn 6. maí kom Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í heimsókn í Borgarholtsskóla.

Lilja sat fund með yfirstjórn skólans og sviðsstjórum. Sviðsstjórar fóru yfir hvernig gengið hefur í þeim óvenjulegu aðstæðum sem skapast hafa í samfélaginu vegna Covid 19. Allir hafa lagst á eitt til að gera nemendum kleift að sinna sínu námi og halda áætlun. Lilja lét í ljós ánægju með hvernig kennarar og nemendur hafa unnið úr málum og hversu vel hefur tekist til á öllum skólastigum.

Fyrirsjáanleg fjölgun nemenda á næsta skólaári er ráðherra hugleikin og vildi Lilja vita hvernig stjórnendur skólans sæju fyrir sér möguleikana á að sinna fleiri nemendum í haust og þá sérstaklega auknum fjölda í iðn- og starfsnámi. Ársæll skólameistari fullvissaði ráðherra um að skólinn væri vel í stakk búinn til að taka við fleiri nemendum en að sumar brautir, t.d. bílgreinar, byggju við viðvarandi skort á húsnæði og aðstöðu.

Að fundi loknum var gengið um skólabygginguna, komið við í kennslustund hjá nemendum á sérnámsbraut og endað í  verknámshúsinu þar sem nemendur voru í óðaönn að sinna verklega hluta sinna áfanga.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira