Lýðræðisfundur Borgó 2020

16/10/2020

  • Mynd-af-lydraedisfundi-2
  • Mynd-af-lydraedisfundi-3

Föstudaginn 16. október var lýðræðisfundur nemenda skólans haldinn með pompi og prakt. Eins og lög gera ráð fyrir var fundurinn haldinn í netheimum að þessu sinni og kom það skipuleggendum og þátttakendum verulega á óvart hversu vel tókst til því eins og oft áður í þessu „fordæmalausa ástandi“ var rennt blint í sjóinn varðandi framkvæmd og útfærslu fundarins. Þátttaka var góð og tóku tæplega 100 nemendur skólans þátt í fundarhöldum.

Fundurinn fór fram á Zoom-inu og hófst með því að  Ásta Laufey, aðstoðarskólameistari, setti fundinn. Þá tók Hermína Huld, deildarstjóri og kennari á félagsvirkni- og uppeldissviði, við og kynnti fyrirkomulag fyrir þátttakendum. Að því loknu var nemendum skipt í minni hópa sem ræddu tvö málefni: Annars vegar um nám og kennslu og hins vegar um félagslíf nemenda. Umræður lituðust auðvitað mjög af ástandinu og námsumhverfinu á tímum farsóttar og samkomubanns.

Meðlimir hópanna ræddu vítt og breitt um málefnin og komu margar athyglisverðar hugmyndir fram bæði hvað varðar nám og kennslu en ekki síður um það sem hægt væri að gera til að auðga félagslíf nemenda. Það vakti eftirtekt hversu mikill hugur var í flestum nemendum og virðast þau upp til hópa vera harðákveðin í að láta ekki ástandið skemma fyrir sér námið á önninni.

Í hverjum hóp var kennari sem sá um að taka niður umræðupunkta og verða punktarnir nú greindir og upp úr þeim unnar tillögur til úrbóta. Munu stjórnendur skólans fá punktana í hendur og ákvarða næstu skref.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira