Lokaverkefni í nýsköpun

16/11/2020 Bóknám

  • 124brand
  • Grímuhönnun
  • Hreyfingin mín
  • Hringjur
  • Kaffidekk
  • Pálmvitund

Nýsköpun og frumkvöðlamennt er hluti af bóknámi til stúdentsprófs við skólann. Í lokaáfanga fagsins, NÝS3A05, snýst lokaverkefni nemenda um að vinna í litlum hópi að eigin hugmynd um nýjan hlut, vöru eða þjónustu og stofna í kring um fyrirbærið lítið fyrirtæki með öllu því sem fylgir. Í eðlilegu árferði hefðu nemendur í lokaáfanganum tekið þátt í keppnum og samsýningum með fyrirtækin sín.  Nú á tímum heimsfaraldurs þurfa nemendur hins vegar að finna sér nýjar leiðir og nota þeir samfélagsmiðla til að kynna hugmyndir sínar. Má segja að aðstæðurnar hafi hvatt nemendur til vinnubragða sem eru mjög í anda nýsköpunar og frumkvöðlamenntar.

Nemendum gefst færi á að færa hugðarefni sín í skólaverkefni og beita sér fyrir þeim. Þau vinna saman í hópum með það að markmiði „að gera heiminn aðeins betri“. Til þess að stuðla að gæðum verkefnanna styðjast þau við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (https://www.un.is/heimsmarkmidin/). Verkefni hópanna eiga að vera til hagsbóta í einhverjum skilningi hvort sem gróðinn er samfélags- eða efnahagslegur.

Verkefnin að þessu sinni eru fjölbreytt en þar er að finna vitundarvakningu um áhrif notkunar á pálmolíu, tækifæri fyrir börn til þess að stunda hreyfingu heima við þeim að kostnaðarlausu, fjölnota andlistgrímur, endurnýting á dekkjum, fatnað með endurskini ætlaðan ungmennum og teygjur unnar úr endurnýttum fatnaði. Nemendur eru því ekki aðeins að fá tækifærið til að hugsa í lausnum heldur jafnframt að notfæra sér erfitt ástand til þess að beita þekkingu sinni á nýsköpun og frumkvöðlamennt.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira