Kynjafræði - skylda eða val?

29/11/2016

  • Thea Imani Sturludóttir og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Í vor gerði Thea Imani Sturludóttir könnun í kynjafræði, þar sem viðhorf nemenda til jafnréttismála og kennslu í kynjafræði var skoðað.  Könnunin var lögð fyrir alla nemendur skólans og bárust 292 svör af nánast öllum brautum.

Margvíslegir þættir sem snúa að ungu fólki voru skoðaðir, s.s. femínismi, kynferðisleg áreitni og ofbeldi, klám, vændi og ekki síst viðhorf til kennslunnar í kynjafræðinni.

Niðurstaðan varðandi síðustu spurninguna var nokkuð afgerandi en 82% þeirra sem hafa lokið áfanganum telja að hann eigi að vera skyldugrein. Ef hlutfall allra nemenda er skoðað þá kemur í ljós að 36% telja að kynjafræði eigi að vera skyldugrein, sami fjöldi hefur ekki myndað sér skoðun en aðeins 27% nemenda er á móti því.

Rúmlega 56% nemenda telja að kynjafræði geti breytt viðhorfum nemenda í jafnréttismálum. Aðeins rúmlega 10% nemenda töldu svo ekki vera og aðrir tóku ekki afstöðu.

Kynjafræði hefur verið valgrein í Borgarholtsskóla síðan 2007 og hefur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennt áfangann frá byrjun. Hanna Björg var jafnframt fyrst allra til að kenna kynjafræði í framhaldsskóla og hefur áfanginn að sjálfsögðu breyst og mótast í gegnum árin, t.d. hefur hinsegin kennsla bæst við.

Meginmarkmið kynjafræðinnar er að vekja nemendur til vitundar um hvaða máli kyn skiptir. Nemendur eiga að sjá og skilja að það er ekkert að þeim og læra að horfa gagnrýnum augum á samfélagið, ríkjandi menningu og  hvaða kröfur eru gerðar til kynjanna.

Thea segir að námið í kynjafræði hafi vakið nemendur til vitundar um ýmislegt sem betur má fara í samfélaginu og í menningunni, t.d. hvernig konur birtast oft í auglýsingum og fjölmiðlum. Hanna Björg er sjálf ekki í neinum vafa um að kynjafræði ætti að vera skyldugrein í öllum framhaldsskólum og einnig telur hún að kenna eigi kynjafræði í kennaranáminu þannig að skólar á öllum skólastigum geti innleitt kynja- og jafnréttisfræðslu.

Ef horft er á niðurstöður könnunarinnar má ljóst vera að Hanna Björg og Thea er ekki einar um þessa skoðun.

Viðtal við þær Hönnu Björg og Theu má lesa í nýjasta tölublaði Skólavörðunnar , tímarits KÍ á bls. 22-23 og þaðan var meðfylgjandi mynd fengin að  láni.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira