Kristófer með fyrirlestur
Mánudaginn 18. desember var úrvinnsludagur hjá starfsfólki í Borgarholtsskóla.
Eftir hádegi mætti Kristófer Bergmann Skúlason nemandi af félags- og hugvísindabraut og flutti fyrirlestur. Efni fyrirlestursins var Duchenne vöðvarýrnun, en Kristófer var einmitt kornungur greindur með þann sjúkdóm.
Kristófer rakti orsakir sjúkdómsins, einkenni og meðferð. Hann sýndi myndir frá ævi sinni og sagði frá hvernig líf hans hefur þróast með þessum sjúkdómi.
Fyrirlestur Kristófers var mjög áhrifaríkur. Það vakti aðdáun viðstaddra hversu mikið æðruleysi Kristófer sýndi gagnvart sjúkdómnum og hvernig hann er algjörlega ákveðinn í að njóta lífsins á besta mögulega máta.