Jarðfræðinemendur á ferð og flugi
Nemendur í þremur jarðfræðiáföngum voru á ferð og flugi
þessa vikuna.
Mánudaginn 24. apríl fóru 18 nemendur í áfanganum JAR2A05 (almenn jarðfræði) í ferð um Reykjanesið með kennara sínum Kristni A. Guðjónssyni. Daginn eftir fóru nemendur í NÁT2B05 (inngangur að jarðfræði) svipaða ferð með Kristni og Óttari Ólafssyni. Reykjanesskaginn er kjörið svæði fyrir ferðir sem þessar. Hann státar af flestu því sem er merkilegt í jarðfræði Íslands en þar má einnig finna jarðfræðileg fyrirbæri sem finnast hvergi annars staðar á þurru landi. Hóparnir voru heppnir með veður og tókust báðar ferðir einstaklega vel.
Miðvikudagskvöldið mættu nemendur í áfanganum JAR2B05 (stjörnufræði) á bílastæðið við Borgarholtsskóla. Þar var kominn góður gestur frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Ætlunin var að skoða stjörnur þetta kvöld en ský byrgðu hópnum sýn. Í staðinn fengu nemendur greinargóðan fyrirlestur um stjörnusjónauka og sýnikennslu í notkun þeirra. Hópurinn stefnir að öðru stjörnuskoðunarkvöldi ef veður leyfir á næstu dögum.