Jafnlaunavottun
Skólaárið 2019-2020 stóð yfir vinna við jafnlaunakerfi skólans. Jafnlaunakerfið byggir á kröfum og leiðbeiningum íslenska stjórnunarstaðalsins ÍST-85:2012. Lauk þeirri vinnu með vottun kerfisins í júní 2020. Jafnlaunakerfinu er ætlað að tryggja að ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Faglegur vottunaraðili Borgarholtsskóla er Versa Vottun.
Í júní 2017 var jafnlaunavottun lögfest með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Samkvæmt þeim lögum skal jafnlaunavottun byggjast á staðlinum ÍST 85 - Jafnlaunakerfi - kröfur og leiðbeiningar.
Jafnlaunastaðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Markmið hans er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Föstudaginn 21. ágúst afhentu fulltrúar Versa Vottunar skólanum vottunarskírteini vegna jafnlaunavottunarinnar og var meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni.