Heimsókn frá Kaliforníu
Föstudaginn 15. september kom Tom Torlaksson yfirmaður kennslumála í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum í heimsókn í Borgarholtsskóla. Með í för var May eiginkona hans og fulltrúi úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tilgangur heimsóknar Toms var að kynna sér menntamál á Íslandi og liðka fyrir hugsanlegu samstarfi menntayfirvalda í Kaliforníu og íslenskra skólastofnanna.
Ársæll Guðmundsson skólameistari tók á móti gestunum og gekk með þeim um skólann. Ræddi Tom, sem á ættir að rekja til Vestfjarða, við nemendur og kennara sem á vegi hans urðu.
Í lok heimsóknarinnar gæddu gestir sér á veitingum í boði bíladeildar skólans.