Heimsókn á Drekaslóð
Í síðustu staðlotu haustannar fóru nemendur í siðfræði í dreifnámi félagsvirkni- og uppeldissviðs ásamt kennara sínum Hildi M. Einarsdóttur
í heimsókn á Drekaslóð. Thelma Ásdísardóttir tók á móti hópnum og
fræddi nemendur um afleiðingar ofbeldis. Í kjölfarið spruttu upp góðar
umræður.
Drekaslóð eru samtök sem aðstoða þolendur
sem hafa orðið fyrir hvers kyns ofbeldi. Það er gert með einstaklingsviðtölum, fjölbreyttu
hópastarfi og ýmis konar fræðslu. Í samtökunum starfar hópur fólks, bæði
karlar og konur, sem hefur mikla
reynslu og þekkingu á afleiðingum ofbeldis. Jafnframt því að veita
þolendum eineltis aðstoð er lögð áhersla á að aðstandendur þeirra geti
komið og fengið ráðgjöf. Ofbeldi sem er framið gegn einum hefur oftast
áhrif á stóran hóp fólks, ástvini þolandans.
Það skiptir miklu máli að ná til ungs fólks eins fljótt og hægt er í kjölfar ofbeldis. Drekaslóð er með sérsniðið efni fyrir ungt fólk til að vinna sig frá afleiðingum ofbeldis.
Heimsóknin var ánægjuleg í alla staði og voru nemendurnir mjög ánægðir með fræðslu Thelmu.