Grafísk hönnun á ferð og flugi
Nemendur og kennarar í grafískri hönnun hafa verið á ferð og flugi. Í síðustu viku fóru kennararnir Kristín María Ingimarsdóttir, Ragnhildur Ragnarsdóttir og Sóley Stefánsdóttir austur fyrir fjall með nemendur á 3. ári í grafískri hönnun. Þau heimsóttu Grétu V. Guðmundsdóttur og Steinar Sigurðsson í Áskoti í Ásahreppi. Gréta er grafískur hönnuður en þau Steinar reka einnig hestatengda þjónustu og starfrækja endurhæfingar- og þjálfunarmiðstöð fyrir hesta með hestasundi og fleiru.
Kristín María, Ragnhildur og Sóley fóru einnig með nemendur á 2. ári í grafískri hönnun á sýningu í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ og skoðuðu yfirlitssýningu Kristínar Þorkelsdóttur. Kristín Þorkelsdóttir er frumkvöðull í grafískri hönnun og stofnandi einnar fyrstu auglýsingastofu landsins auk þess að vera annar hönnuða peningaseðla Íslands. Eftir að hafa skoðað sýninguna fengu nemendur svo að taka þátt í smiðju í nýrri vinnustofu sem safnið er með.
Báðar ferðir voru afar vel heppnaðar og voru nemendur og kennarar ánægð með þær.