Gestir vegna Nordplus verkefnis

27/4/2018

  • Glaðir nemendur næra sig andlega og efnislega
  • Hópefli í Egilshöll
  • Morgunverður í BHS
  • Hópefli í Egilshöll
  • Kennarar dást að nýsköpun Óttars
  • Hópefli í Egilshöll
  • Heimsókn í NMÍ
  • Morgunverður í BHS

Í vikunni heimsótti hópur nemenda og kennara frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum Borgarholtsskóla. Var tilgangur heimsóknarinnar að taka þátt í verkefni með Borghyltingum um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnið hefur staðið yfir frá því í haust og hafa nemendur Borgarholtsskóla ferðast til Kalundborgar í Danmörku, Poorvoo í Finnlandi, Madona í Lettlandi og Kurressaare í Eistlandi. Alls hafa 20 nemendur farið í þessar ferðir en Óttar, Kristján og Anton hafa annast skipulagningu og verið farastjórar.

Ýmislegt var aðhafst hér heima og fór hópurinn til dæmis í heimsókn í Nýsköpunarmiðstöð Íslands og í mikið ferðalag um Reykjanes þar sem nemendur kynntu sér merkileg jarðfræðileg fyrirbæri auk þess sem þeir kynntu sér starfsemi Carbon Recycling. Þess má geta að þemað sem unnið var með var að þessu sinni nýsköpun og iðnaður enda þátttakendur í verkefninu af okkar hálfu allir nemendur í lokaáfanga í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Nemendur, sem hýstu gestina meðan á dvölinni stóð, buðu svo gestum sínum upp á klassíska ferð um suðurland þar sem komið var bæði við á Gullfossi og Geysi. Að lokum var haldin gríðarleg pitsuveisla í sal skólans þar sem sýndar voru myndir sem nemendur höfðu tekið á ferðum sínum.

Sótt hefur verið um styrk til Nordplus til þess að halda verkefninu áfram. Ef af verður er um tveggja ára verkefni að ræða þar sem Litháar bætast í hópinn.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira