Gestir úr Rimaskóla

14/4/2016

  • Samvinna í stærðfræði
  • Pitsuveisla í boði NFBHS
  • Kennslustund í lífsleikni
  • Samvinna og samstaða
  • Hressir kennarar

Að hefja nám í framhaldsskóla er stórt skref í lífi hvers einstaklings. Það þekkja allir sem reynt hafa. Um þessar mundir eru fjölmargir námsmenn um land allt að undirbúa einmitt þetta skref. Nemendur 10. bekkjar Rimaskóla fengu tækifæri til að upplifa einn dag í framhaldsskóla og var heimsóknin liður í samstarfsverkefni BHS og Rimaskóla um námsmat á mörkum skólastiga.

Markmið verkefnisins er að draga úr þeirri óvissu sem fylgir þessari umbreytingu. Í því skyni var tíundu bekkingum boðið að koma í heimsókn í BHS til þess að upplifa sjálf muninn á verunni þar og í grunnskólanum. Fengu þau tækifæri til þess að heimsækja kennslustund að eigin vali og taka þátt í því sem þar fór fram við hlið nemenda BHS. Eftir pizzuveislu og myndasýningu í boði nemendafélagsins (NFBHS) var svo haldið í lífsleiknitíma þar sem nemendur beggja skóla unnu sameiginlegt verkefni þar sem reynslu af vali og veru í framhaldsskóla var miðlað.

Verkefninu er einnig ætlað að stuðla að aukinni samræðu milli kennara skólastiganna. Síðar á önninni eru áætlaðir samráðsfundir kennara í 10. bekk og umsjónarkennara nýnema í BHS þar sem rætt verður um heimsóknina og upplifun nemenda beggja skóla af henni auk þess sem aðrir þættir sem snerta þetta ferli verða til umfjöllunar. Tilgangurinn er að auðvelda nemendum að stíga þetta örlagaríka skref og draga þannig úr brottfalli og brotthvarfi á fyrstu misserum framhaldsskólagöngu.

Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði og hefur Unnur Gísladóttir umsjón með því fyrir hönd BHS en Hrafnhildur Halldórsdóttir fyrir  hönd Rimaskóla.

Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira