Fyrrum nemandi Borgó framkvæmdastjóri álframleiðslu hjá Fjarðaráli

26/4/2022 Málmiðngreinar

  • Ingólfur T. Helgason

Ingólfur T. Helgason, fyrrum nemandi Borgarholtsskóla, tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra álframleiðslu hjá Fjarðaráli. Ingólfur er yngsti framkvæmdastjóri Fjarðaráls frá upphafi en hann útskrifaðist af vélvirkjabraut frá Borgarholtsskóla árið 2005. 

Ingólfur ólst upp í Breiðholti og átti erfitt með nám í grunnskóla og féll á öllum samræmdu prófunum. Móður hans var til að mynda sagt að það „yrði líklega aldrei neitt úr honum“. Hann fékk þó skólavist í Borgarholtsskóla að loknum grunnskóla og blómstraði þar á sviði vélvirkjunar. Þar kviknaði loks áhugi á náminu sem hann var að fást við og þá fóru hlutirnir að gerast. Hann útskrifaðist frá Borgaholtsskóla 2005 með frábærar einkunnir. Eftir það lá leið hans á frumgreinabraut Háskólans í Reykjavík  en hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hann fór að því loknu í véla- og orkutæknifræði í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist 2011.

Árið 2010 byrjaði Ingólfur að vinna hjá Alcoa Fjarðaráli og hefur unnið þar síðan, meðal annars í tvö ár í Saudí Arabíu. Árið 2014 fluttu hann og kona hans, Ingibjörg Karlsdóttir, til Reyðarfjarðar. Síðastliðið sumar, 2021, voru miklar mannabreytingar í fyrirtækinu og Ingólfur tók tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra í álframleiðslu. Í lok árs 2021 tók hann svo endanlega við starfinu.

Skólaganga Ingólfs sýnir að hægt er að sigrast á erfiðleikum í námi og telur Ingólfur sjálfur að hann sé með lesblindu en hann hafi lært að vinna með hana. Umfram allt telur hann mikilvægt að finna það nám sem raunverulegur áhugi er á og tileinka sér svo aga og vinnusemi.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira