Danmerkurferð

23/4/2018

  • Danmerkurferð í mars 2018
  • Danmerkurferð í mars 2018

Þann 22. mars sl. fóru 12 nemendur í dönsku í skólaheimsókn til Danmerkur ásamt kennara sínum, Ingu Jóhannsdóttur og var Hafdís Ágústsdóttir fyrrverandi dönskukennari með í för.  Flogið var til Kaupmannahafnar og þaðan til Álaborgar þar sem lýðháskólinn Nord-Jyllands Idrætshøjskole var heimsóttur. Skólinn er staðsettur í fallegu umhverfi norður af Álaborg. Lýðháskólahefðin á sér langa sögu í Danmörku og er stór hluti danskrar menningar. Við komuna í skólann fræddi móttökunefnd gestina um skólann og eftir góðan kvöldverð var farið í ævintýraferð á fjallareiðhjólum.

Á föstudeginum 23. mars tóku íslensku gestirnir þátt í skólastarfinu s.s. hópeflandi leikjum og þrautum og  naut  stór klifurturn mikilla vinsælda. Ekki var laust við að sumum þætti turninn full háskalegur en skemmtilegur var hann. Íþróttir voru sömuleiðis stundaðar af kappi. Ákveðin hvíld var að setjast inn í skóla og syngja með nemendum lýðháskólans danska, íslenska og enska söngva. Eftir kvöldmat var kveðjustund út í bálhúsi þar sem eldur logaði glatt, brauð bökuð á trjágreinum og síðan etin með ánægju á meðan bíómynd rann yfir skjáinn. Dásamleg stund þar sem Íslendingarnir þökkuðu fyrir frábæra dvöl og viðurgjörning. 

Laugardagsmorguninn 25. mars, var vaknað kl. hálf fimm til að taka flugið til Kaupmannahafnar. Það var ekki laust við að fólk væri syfjað og undirlagt af harðsperrum  eftir skemmtilega dvöl á Jótlandi. Kaupmannahöfn tók vel á móti ferðalöngunum full af viðburðum og eftir dásamlega kvöldstund á pizzustað þar sem starfsliðið, að beiðni nemenda, kom og söng og spilaði fyrir afmælisbarn dagsins „O sole mio“ og „Kim Larsen“ var skundað í Tívolí. Þessi elsti skemmtigarður í heimi skartaði sínu fegursta og þrátt fyrir að það væri nokkuð kalt í veðri nutu nemendur þess að skemmta sér þar saman. Kvöldinu lauk svo með glæsilegri flugeldasýningu í Tívolí.

Morguninn eftir var flogið heim til Íslands og frábær ferð var á enda.

Það er áhugavekjandi og hvetjandi fyrir nemendur sem eru að læra erlent mál að geta heimsótt landið og fengið innsýn í menningu og lífshætti þeirrar þjóðar sem talar málið. Þó að tengsl þjóðanna eigi sér langa sögu og séu náin og mikilvæg, t.d í norrænu samstarfi, er það staðreynd að nemendur heyra ekki dönsku mikið talaða  í sínu umhverfi. Lýðháskólinn tók frábærlega á móti Borghyltingum og voru nemendur ánægðir og sér og sínum til mikils sóma.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira