Brautskráning

28/5/2021

 • Brautskráning vor 2021
 • Ársæll skólameistari
 • Ásta Laufey aðstoðarskólameistari
 • Brautskráning vor 2021
 • Embla Líf
 • Sigurður Anton flutti ávarp 10 ára útskriftarnema
 • Brautskráning vor 2021
 • Katrín Inga og Andri Snær
 • Brautskráning vor 2021
 • Brautskráning vor 2021
 • Brautskráning vor 2021
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
 • Brautskráning vor 2021
 • Brautskráning vor 2021

Föstudaginn 28. maí brautskráðust 184 nemendur frá Borgarholtsskóla af öllum brautum skólans. Vegna samkomutakmarkana var athöfnin með óhefðbundnu sniði en engir gestir voru leyfðir í sal. Athöfninni var streymt á Facebook síðu skólans fyrir aðstandendur af nemendum í kvikmyndagerð undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara. 

Í upphafi athafnar lék Skólahljómsveit Mosfellsbæjar undir stjórn Kristjóns Daðasonar nokkur lög. Ársæll Guðmundsson, skólameistari, setti athöfnina og að því loknu tók Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, aðstoðarskólameistari, við og fór yfir það helsta markverða á önninni. 

Katrín Inga Tryggvadóttir söng við undirleik Andra Snæs Zebitz Valdimarssonar. Þau fluttu lögin Hjá þér, lag eftir Guðmund Jónsson og texta eftir Friðrik Sturluson, Þannig týnist tíminn, lag og texta eftir Bjartmar Guðlaugsson og Góða ferð, lag eftir Jose Feliciano og texta eftir Jónas Friðrik Guðnason. 

Brautskráðust 54 nemendur af þremur bóknámsbrautum, 26 nemendur af þremur listnámsbrautum, 93 af ellefu iðn- og starfsnámsbrautum, 7 af sérnámsbraut og 4 luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Nemendahópurinn endurspeglaði þá fjölbreytni sem einkennir Borgarholtsskóla og sumir nemendur luku fleiri en einni námsleið. Fjölmargir fengu verðlaun fyrir góðan árangur í námi. 

Ávarp útskriftarnema flutti Embla Líf Hallsdóttir en hún útskrifast af félags- og hugvísindabraut. Ávarp 10 ára útskriftarnema flutti Sigurður Anton Friðþjófsson sem útskrifaðist af listnámsbraut. 

Þrír kennarar létu af störfum vegna aldurs og hafa þeir allir starfað við skólann í mörg ár. Guðmundur Þórhallsson, stærðfræðikennari, hefur starfað við skólann frá stofnun hans 1996. Hermann Jóhannesson, kennari í bílamálun, og Jón Hjaltalín Ólafsson, kennari í málmiðnum en þeir hófu báðir störf árið 1998.

Ársæll Guðmundsson flutti að lokum kveðjuorð til nemenda og talaði um þrjá mikilvæga þætti sem hann bað nemendur að hafa í huga. Það er umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileikanum, hin eilífa barátta við fordóma og fáfræði og að læra af sögunni með því að skilja hana og muna. Hann sagðist vonast til að í Borgarholtsskóla hefðu nemendur öðlast þau verkfæri sem þarf til að vinna með þessa mikilvægu þætti.

Ársæll færði velunnurum skólans þakkir fyrir stuðninginn. Starfsfólk fékk einnig þakklæti fyrir að halda skólastarfi gangandi á tímum heimsfaraldurs og að lokum óskaði Ársæll öllum gleðilegs sumars og sleit brautskráningarathöfninni.

Brautskráðum nemendum er óskað innilega til hamingju með áfangann og gæfuríkrar framtíðar.

Fleiri myndir má finna á facebook síðu skólans .


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira