Brautskráning

19/12/2020

 • Beðið eftir útskrift
 • Ingi Þór
 • Karítas María
 • Katrín og Andri
 • Beðið eftir útskrift
 • Beðið eftir útskrift
 • Beðið eftir útskrift
 • Kennarar skólahljómsveitar Mosfellsbæjar
 • Kristinn Hallur flytur ávarp útskriftarnema
 • Röðin til útskriftar
 • Sigurlín
 • Sólon
 • Thelma Ósk

Í dag, laugardaginn 19. desember 2020, voru brautskráðir 133 nemendur af flestum brautum skólans. Þetta var fjölmennasti útskriftarhópur skólans á haustönn frá upphafi sem er sérstaklega ánægjulegt vegna þess hve krefjandi önnin hefur verið. Vegna sóttvarnarreglna og ástandsins í samfélaginu var athöfnin með óhefðbundnu sniði. Athöfninni var streymt á Facebook síðu skólans fyrir aðstandendur en útskriftarnemar mættu í tíu manna hópum til að taka við skírteinum sínum og viðurkenningum.

Ársæll Guðmundsson setti athöfnina og Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir fór yfir markverða atburði liðinnar annar. Útskriftarnemar fengu rafræna kveðju frá kennurum og starfsfólki skólans í formi myndbands.

Katrín Inga Tryggvadóttir söng við undirleik Andra Snæs Zebitz Valdimarssonar. Þau fluttu lögin Þannig týnist tíminn, lag og texti eftir Bjartmar Guðlaugsson, White Christmas, lag og texti eftir Irving Berlin og Dansaðu vindur, lag eftir Peter og Nanne Grönvall og texti eftir Kristján Hreinsson. Auk Katrínar og Andra spiluðu kennarar skólahljómsveitar Mosfellsbæjar fyrir gesti fyrir athöfnina og á meðan henni stóð. Þessum einstaklingum öllum er þakkað kærlega fyrir frábæran tónlistarflutning.

Útskriftarhópurinn var venju samkvæmt fjölbreyttur af mörgum brautum skólans en flestir útskrifuðust úr bifvélavirkjun og af félags- og hugvísindabraut. Allir útskriftarnemar fengu auk prófskírteinis sýprisplöntu. Kristinn Hallur Arnarsson, útskriftarnemi af listnámsbraut, flutti ávarp útskriftarnema.

Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Karítas María Arnardóttir var með hæstu einkunn á stúdentsprófi en hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut og afrekssviði. Hún fékk margar viðurkenningar meðal annars fyrir frábæran námsárangur á afreksbraut. Thelma Ósk Þórðardóttir hlaut sérstaka viðurkenningu en hún útskrifaðist úr bifreiðasmíði með viðbótarnám til stúdentsprófs en hafði áður útskrifast af félagsliðabraut skólans árið 2015.

Ársæll flutti að lokum kveðjuorð til útskriftarnema. Hann minnti þau á að sýna auðmýkt og að með samheldni og samtakamætti væri líklegra að ná árangri, líkt og sæist í baráttunni við veiruna. Að lokum þakkaði Ársæll samstarfsfólki og nemendum fyrir góð störf á þessari krefjandi önn.

Brautskráðum nemendum er óskað gæfuríkrar framtíðar og til hamingju með áfangann. 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira