Brautskráning

20/12/2019

 • Skólameistarar umkringir útskriftarnemum
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar lék lög í anddyri skólans fyrir athöfnina
 • Nökkvi Jarl Bjarnason var kynnir
 • Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari með yfirlit annar
 • Prófskírteini afhent
 • Skírteini afhent
 • Prófskírteini afhent
 • Aldís Birta Gautadóttir flutti ávarp útskriftarnema
 • Ársæll Guðmundsson skólameistari flytur kveðjuorð
 • Katrín Inga Tryggvadóttir og Andri Snær Zebitz Valdimarsson flutti tvö lög
 • Hvítar húfur
 • Rauðar húfur
 • Alls konar húfur
 • Diogo Meireles Da Silva fékk mörg verðlaun þar á meðal sprautukönnu frá DeVilbiss
 • Arnþór Birkir Sigurðsson fékk mörg verðlaun
 • Afreksnemendur ásamt Sveini Þorgeirssyni verkefnastjóra og Ársæli Guðmundssyni skólameistara
 • Brautskráning í desember 2019
 • Brautskráning í desember 2019
 • Brautskráning í desember 2019
 • Brautskráning í desember 2019

Föstudaginn 20. desember 2019 voru nemendur brautskráðir frá Borgarholtsskóla. Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina en kynnir var Nökkvi Jarl Bjarnason kennari við skólann.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði í anddyri skólans á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum. Stjórnandi hljómsveitarinnar var Kristjón Daðason.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari sagði í nokkrum orðum frá liðinni haustönn. Nemendur voru rúmlega 1400 þessa önnina, 1085 í dagskóla, 266 í dreifnámi og um það bil 75 grunnskólanemendur voru í vali í málmiðngreinum og listnámi. Ásta fór vítt og breytt í ræðu sinni, talaði til dæmis um öflugt nemendafélag og leikfélag og hún vakti athygli á uppgangi í iðnnámi og þeirri staðreynd að stúlkum er að fjölga í bíliðngreinum.

Katrín Inga Tryggvadóttir og Andri Snær Zebitz Valdimarsson fluttu lögin Jólin alls staðar og White Christmas.

Námsframboðið í Borgarholtsskóla er fjölbreytt og endurspeglaðist það í brautskráðum nemendum. 104 nemendur voru brautskráðir af flestum brautum skólans, 31 af bóknámsbrautum, 13 úr listnámi, 6 af málm- og véltæknibrautum, 27 af bíltæknibrautum, 22 af félagsvirkni- og uppeldissviði og 5 með viðbótarnám til stúdentsprófs. Nokkrir í þessum hópi útskrifuðust af tveimur eða fleiri brautum.

Ársæll skólameistari brautskráði nemendur en sviðsstjórar afhentu fjölmörgum nemum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur. Það er hefð að færa útskriftarnemum í desember hýasintu að gjöf og út frá því var ekki brugðið.

Aldís Birta Gautadóttir flutti ávarp útskriftarnema en Aldís útskrifaðist af félagsliðabraut og lauk jafnframt stúdentsprófi.

Ársæll flutti kveðjuorð til útskriftarnema. Hann talaði út frá tímanum vegna þess að mannkynið stendur á tímamótum – mörkum mikilla breytinga, t.d. með tilliti til náttúrunnar. Hann sagði að það að standa á tímamótum þyrfti ekkert að vera slæmt en velja yrði rétta leið. Ársæll benti nemendum á að þeir væru á krossgötum í lífinu, þeir væru búnir að ná mikilvægum áfanga og nú tæki eitthvað annað við. Hann sagðist vona að nemendur hefðu fengið í veganesti vitund um tíma og hversu mikilvægt það sé að nýta þann tíma sem hver og einn hefur, það skipti máli fyrir framtíð þeirra og fyrir komandi kynslóðir. Hann sagði að allir væru örlagavaldar framtíðarinnar og það væri mikilvægt að vita af og virða þá ábyrgð sem hvílir á herðum hvers og eins og gera alltaf eins vel og hægt er. Ársæll hvatti nemendur til góðra verka með þau verkfæri sem menntunin hefur fært þeim.

Ársæll sagði að útskriftarnemarnir ættu án efa eftir að mæta áskorunum og verða fyrir höfnunum en þeir mættu aldrei láta deigan síga, þeir ættu að hafa hugsjónir og gæta þess að missa ekki sjónar á þeim. Ársæll vitnaði í Jack Ma, stofnanda AliBaba Group. Hann var kennari í ensku en langaði alltaf að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd sem hann fékk og honum tókst það. Jack Ma sagði að nú á tímum væri það ekki greindarvísitala (IQ) sem skipti mestu fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélag, heldur skipti tilfinningagreind (EQ) miklu máli og ekki síður ástarvísitalan (LQ). Það að geta verið mennskur, að þykja vænt um aðra, kunna að elska og sýna virðingu og geta fengið stórar hugmyndir væri málið. Eftirspurn væri mikil eftir góðum hugmyndum, sköpun og skilningi.

Ársæll sagði að ungu fólki fyndist það oft vera að missa af tímanum, það þyrfti að gera allt strax en hann fullvissaði nemendur um að þau gætu alveg verið róleg, lífið væri rétt að byrja og þrautseigja og þolinmæði væri dyggð.

Ársæll endaði ræðu sína á að þakka fjölmörgum velunnurum skólans, starfsfólkinu sem kom að því að gera athöfnina að veruleika og öllu starfsfólki Borgarholtskóla fyrir samstarfið og vel unnin störf á liðinni önn. Hann þakkaði nemendum fyrir ómetanlegan skerf til skólans en enginn skóli er betri en nemendur hans því þeir bera skólanum vitni þegar fram líða stundir.

Athöfninni lauk með að gestir risu úr sætum og sungu saman Bráðum koma blessuð jólin. Gestum var svo boðið upp á kaffi og konfekt áður en þeir yfirgáfu skólann.

Fleiri myndir er hægt að sjá á facebook síðu skólans.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira