Brautskráning

20/12/2017

 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • IMG_4336
 • IMG_4320
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017
 • Brautskráning desember 2017

Fimmtudaginn 21. desember voru hundrað og níu nemendur brautskráðir frá Borgarholtsskóla. Nemendurnir útskrifuðust af bíltæknibrautum, bóknámsbrautum, félagsvirkni- og uppeldissviði, málm- og véltæknibrautum og úr listnámi.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði í anddyri skólans, á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina en kynnir var Guðrún Guðjónsdóttir kennari í íslensku. Ingi Bogi Bogason aðstoðarskólameistari sagði stuttlega frá liðinni haustönn. Í skólanum stunduðu 1367 nemendur nám, 1147 í dagskóla og 220 í dreifnámi.

Kári Haraldsson nemandi í listnámi lék tvö lög á píanó.

Ársæll skólameistari afhenti útskriftarnemum prófskírteinin og sviðsstjórar veittu fjölmörg verðlaun fyrir góðan árangur. Það er hefð að færa útskriftarnemum í desember hýasintu og út frá þeirri hefð var ekki brugðið.

Lovísa Rut Lúðvíksdóttir útskriftarnemi úr listnámi flutti kveðjuorð nemenda.

Í kveðjuorðum skólameistara til útskriftarnema talaði hann um breytingar og hversu örar breytingar eru í nútímasamfélagi. Það er mikilvægt að átta sig á hvaða breytingar eru nauðsynlegar og góðar og verðskulda að séu studdar og hvaða breytingar séu slæmar og vinna þurfi á móti. Skólinn hefur í gegnum tíðina leitast við að fylgja samfélagsbreytingum og nefndi hann sérstaklega hversu framarlega hann stendur þegar kemur að femínisma og kynjafræðslu. Einnig nefndi hann breytingu sem gerð var á skipuriti skólans og uppsetningu skóladagatals og tók gildi á haustönn og felur í sér að hefðbundinn prófatími er aflagður og símat tekið upp í öllum áföngum.

Hann nefndi að hægt væri að flokka breytingar í tvær tegundir: Breytingar sem við gerum og tökum þátt í, t.d. að flokka sorp og verða umhverfisvæn. Hin tegundin á sér stað í meðvitund hvers og eins og snýr að gildi þess að byggja upp, skoða hvað eigi að varðveita og hverju þurfi að breyta. Áherslur í skólastarfi hafa breyst síðustu áratugi. Áður var aðalatriðið að muna ákveðið svar, en í dag er mikilvægara að nemendur skilji og skapi, geti gagnrýnt, aflað sér þekkingar og eigi góð samskipti.

Ársæll sagðist vona að námið í Borgarholtsskóla hefði fært nemendum það veganesti að geta greint og séð hvaða breytingar skipta máli. Skynsemi til að verða liðsmenn jákvæðra breytinga, breytinga til að vernda náttúruna og stuðla að jafnrétti og umburðarlyndi. 

Skólameistari sagðist trúa því að útskriftarnemar geti komið ýmsu jákvæðu til leiðar og skapað gott og heilbrigt samfélag fyrir alla. Hann hvatti þau til að rækta líkama og sál og minnti þau á að bera virðingu fyrir sjálfu sér, samferðafólki og umhverfi, láta ekki draga úr sér kjarkinn, fara varlega og sýna aðgát í nærveru sálar.

Ársæll þakkaði nemendum fyrir þeirra framlag til skólans og lýsti yfir ánægju sinni með kraftmikið og hugdjarft fólk sem næði sér í menntun og horfði til framtíðar. Að lokum óskaði hann nemendum velfarnaðar og minnti þau á gleyma ekki að lifa á líðandi stundu, læra af sögunni en horfa fram á veginn.

Tveir kennarar láta nú af störfum vegna aldurs en það eru Geir Rögnvaldsson kennari í stærðfræði og Lilja Á. Guðmundsdóttir kennari í ensku. Þeim var sérstaklega þakkað fyrir samstarfið, tryggð og velunnin störf við skólann.

Í lok hátíðarinnar sungu allir saman jólasálminn Heims um ból.

 


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira