Brautskráning

25/5/2022

 • Nemendur við brautskráningu.
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
 • Stúdínur
 • Nemar af félagsvirkni- og uppeldissviði.
 • Nemar af verknámsbrautum
 • Stúdentar
 • Nemendur með hvítar húfur.
 • Nökkvi Jarl Bjarnason kynnir
 • Anton Már Gylfason, aðstoðarskólameistari.
 • Bjartmar Þór Unnarsson
 • Gunnar Ingi Reykjalín Sveinsson
 • Sönghópur Borgarholtsskóla
 • Brautskráðir nemendur
 • Nemendur við brautskráningarathöfn
 • Alice Viktoria og Ásta Isabella
 • Daníel Guðni Jóhannsson, Guðrún Ragna Karlsdóttir og Atli Pálmar Snorrason ásamt viðurkenningum sínum.
 • Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, skólameistari
 • Hrönn Harðardóttir sviðsstjóri ásamt nemendum að útskrifast af sérnámsbraut.

Brautskráning Borgarholtsskóla fór fram miðvikudaginn 25. maí 2022 í Silfurbergi í Hörpu. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, undir stjórn Daða Þórs Einarssonar, spilaði fyrir gesti meðan þeir komu í hús. 

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, skólameistari, setti samkomuna en kynnir var Nökkvi Jarl Bjarnason, kennari. 

Anton Már Gylfason, aðstoðarskólameistari, fór yfir það sem helst hefur á daga drifið á vorönninni. 

Sönghópur Borgarholtsskóla, undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur kennara á listnámsbraut, söng tvö lög í athöfninni en það voru lögin Shallow eftir Lady Gaga og You are the reason eftir Calum Scott. 

Brautskráðir voru 149 nemendur. Venju samkvæmt var úrskriftarhópurinn fjölbreyttur. 39 nemendur brautskráðust af bóknámsbrautum, 9 nemendur af listnámsbrautum, 5 nemendur af sérnámsbraut, 27 af málm- og véltæknibrautum, 38 af bíltæknibrautum, 29 af félagsvirkni- og uppeldissviði og 3 luku viðbótarnámi til stúdentsprófs.  

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir brautskráði nemendur og sviðsstjórar afhentu þeim birkiplöntur til gróðursetningar en það er hefð sem var innleidd á fyrstu árum skólans.

Fjölmargir hlutu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur og ástundun. Meðal þeirra var Bjartmar Þór Unnarsson sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut og afrekssviði  en hann hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku, bestan árangur í nýsköpun, góðan árangur í náttúrufræðigreinum og fyrir einstaka ástundun og frábæran árangur í námi á afreksíþróttasviði. Daníel Guðni Jóhannsson fékk viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur í bifvélavirkjun, Guðrún Ragna Karlsdóttir fyrir góðan námsárangur í bílamálun og Atli Pálmar Snorrason fyrir frábæran námsárangur í bifreiðasmíði. Þess má geta að Atli Pálmar brautskráðist úr bílamálun vorið 2018 og fékk þá einnig verðlaun fyrir góðan námsárangur. 

Ásta Isabella Kent og Alice Viktoria Kent fluttu ávarp útskriftarnema. Þær útskrifast báðar af félagsliðabraut með viðbótarnám til stúdentsprófs. Bjarki Geirdal Guðfinnsson flutti ávarp 10 ára útskriftarnema og Gunnar Ingi Reykjalín Sveinsson flutti ávarp 20 ára útskriftarnema. 

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir flutti kveðjuorð til útskriftarnema og óskaði þeim til hamingju með áfangann. Í ræðu sinni ræddi hún um ítalska orðið borgo en það þýðir þorp. Að einhverju leyti mætti líta á Borgarholtsskóla sem þorp ef miðað er við fjölda starfsfólks og nemenda. Ásta Laufey minntist á orðatiltækið um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Nemendur sem nú brautskrást hafi alist upp, þroskast og dafnað í skólanum eða þorpinu. Nú yfirgefi þau þorpið og haldi á vit nýrra ævintýra. 

Tveir starfsmenn skólans láta af störfum sökum aldurs en það eru þau Þórkatla Þórisdóttir kennari á félagsvirkni- og uppeldissviði og Rúnar Arason kennari á málm- og véltæknibrautum. Ásta Laufey og þakkaði þeim fyrir vel unnin störf en þau gátu ekki verið við athöfnina. 

Ásta Laufey þakkaði velunnurum skólans og sagði stuðning þeirra vera ómetanlegan í starfi skólans. Hún endaði ræðu sína á því að þakka starfsfólki fyrir samstarfið og nemendum fyrir samveruna í skólanum síðustu annir.  

Brautskráðum nemendum er óskað kærlega til hamingju með áfangann og velfarnaðar um ókomna tíð. 

Fleiri myndir má finna á facebook síðu skólans


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira