Brautskráning

18/12/2021

 • Stoltir skólameistarar
 • Nökkvi Jarl Bjarnason var kynnir
 • Katrín Inga Tryggvadóttir söng við undirleik Andra Snæs Zebitz Valdimarssonar
 • Asbjörg Joana Skorastein var með hæstu meðaleinkunn útskriftarnema
 • Anton Már Gylfason aðstoðarskólameistari flutti yfirlit annar
 • Hvítir kollar komnir upp.
 • Rauðir og gráir líka komnir upp.
 • Andri Snær Zebitz Valdimarsson flutti ávarp útskriftarnema
 • Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir skólameistari í ræðustól
 • Marta Lunddal Friðriksdóttir, Sigþór Haraldsson og Hilmar Sverrisson létu af störfum vegna aldurs.
 • Sönghópur Borgarholtsskóla
 • Þrír félagar með hvíta húfu
 • Tveir nemendur af félagsvirkni- og uppeldssviði
 • Þessar biðu rólegar eftir brautskráningu
 • Útskriftarnemar ásamt skólameisturum
 • Fjórir nemendur af afreksíþróttasviði ásamt Sveini Þorgeirssyni verkefnisstjóra
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar leik fyrir gesti.

Laugardaginn 18. desember 2021 fór fram brautskráning í Borgarholtsskóla þar sem 122 nemendur voru brautskráðir.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, undir stjórn Daða Þórs Einarssonar, kom sér fyrir á brúnni á 2. hæð og spilaði þaðan fyrir gesti á meðan þeir komu sér fyrir í sætum.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir skólameistari setti athöfnina en kynnir var Nökkvi Jarl Bjarnason kennari í íslensku.  Áður en hann tók við stjórninni var fyrsta tónlistaratriðið en það var Sönghópur Borgarholtsskóla sem söng lagið Fallegur dagur eftir Bubba Morthens undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur kennara á listnámsbraut.

Anton Már Gylfason aðstoðarskólameistari sagði frá því helsta sem markvert þótti á haustönninni, bæði því sem tengdist námi og starfi nemendafélagsins. Í skólanum stunduðu rúmlega 1400 nemendur nám, 1055 voru í dagskóla og 240 í dreifnámi auk þess sem 109 grunnskólanemendur sóttu valgreinar við skólann.

Að því loknu söng Katrín Inga Tryggvadóttir lagið White Christmas eftir Irving Berlin við undirleik Andra Snæs Zebitz Valdimarssonar útskriftarnema.

Ásta Laufey skólameistari afhenti útskriftarnemum prófskírteinin með aðstoð Antons Más aðstoðarskólameistara. Að venju var hópurinn sem brautskráðist fjölbreyttur og sumir luku námi á fleiri en einni braut. Að þessu sinni brautskráðust 55 nemendur af bíltæknibrautum, 19 nemendur af bóknámsbrautum, 19 nemendur af félagsvirkni- og uppeldissviði, 7 nemendur af listnámsbrautum og 15 nemendur af málm- og véltæknibrautum. Auk þess luku 7 nemendur viðbótarnámi til stúdentsprófs. Sviðsstjórar veittu fjölmörg verðlaun fyrir framúrskarandi árangur en hæstu einkunn að þessu sinni hlaut Asbjörg Joana Skorastein sem lauk námi sem leikskólaliði og fékk í einkunn 9.75. Það er hefð að færa útskriftarnemum í desember hýasintu að gjöf og út frá þeirri hefð var ekki brugðið.

Katrín söng lagið Góða ferð, lag Jose Feliciano og texta eftir Jónas Friðrik, við undirleik Valdimars Snæs.

Andri Snær Zebitz Valdimarsson stóð svo upp frá píanóinu og flutti kveðjuorð útskriftarnema.

Ásta Laufey flutti kveðjuorð til útskriftarnema. Í ræðu sinni ræddi hún meðal annars um það eðli mannsins að vilja halda sig innan þægindarammans en benti á að það væri nauðsynlegt að stíga stundum út fyrir hann til að öðlast aukin þroska og fá tækifæri til að læra nýja og áhugaverða hluti. Ásta sagði að utanaðkomandi aðstæður hefðu síðustu annir þvingað alla til að stíga út fyrir þægindarammann og takast á við óþekktar aðstæður. Nemendur hefðu tekist á við þennan óþekkta veruleika á aðdáunarverðan hátt og sönnun þess væri útskrift þeirra í dag. Þetta sýndi að útskriftarnemarnir væru tilbúnir í að mæta nýjum áskorunum og að þeir gætu tekist á við hvað sem væri.

Þrír starfsmenn láta nú af störfum sökum aldurs eftir að hafa starfað við skólann til margra ára. Þetta eru Hilmar Sverrisson, tækjavörður í listnámi, Marta Lunddal Friðriksdóttir stuðningsfulltrúi og Sigþór Haraldsson kennari í málmiðngreinum.  Ásta Laufey færði þeim þakklætisvott frá skólanum og þakkir fyrir þeirra skerf til skólabrags Borgarholtsskóla.

Ásta Laufey færði fjölmörgum velunnurum skólans þakkir og sagði að stuðningur þeirra væri ómetanlegur. Hún endaði svo ræðu sína á því að þakka starfsfólki fyrir vel unnin störf, nemendum fyrir samveruna síðustu annir og óskaði öllum gleðilegra jóla.

Athöfninni lauk með því að Sönghópur Borgarholtsskóla söng lagið Dansaðu vindur, lag Peter og Nanne Grönvall og texta Kristjáns Hreinssonar, undir stjórn Guðbjargar.

Nemendur í kvikmyndagerð, undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara, streymdu athöfninni á facebook síðu skólans til að gera öllum kleift til að fylgjast með en vegna sóttvarnaraðgerða þurfti að takmarka fjölda aðstandenda.

Útskriftarnemum er óskað innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar um ókomna tíð.

Fleiri myndir eru á facebook síðu skólans.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira