Brautskráning

20/12/2018

 • Aðalbjörg Brynja Pétursdóttir var með hæstu meðaleinkunn útskriftarnema.
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði fyrir athöfnina.
 • Nökkvi Jarl Bjarnason stýrði útskriftarathöfninni.
 • Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari fór yfir liðna önn.
 • Sönghópur Borgarholtsskóla flutti lagið Vikivaki.
 • Ársæll Guðmundsson skólameistari flytur kveðjuorð
 • Hvítu kollarnir komnir upp
 • Rauðar og gráar húfur komnar upp.
 • Mustafa Abubakr Karim flutti ávarp útskriftarnema
 • Lára Snædal Boyce söng Yfir fannhvíta jörð.
 • Danelíusi Sigurðssyni var þakkað fyrir vel unnin störf.
 • Nemendur af afreksíþróttasviði ásamt verkefnastjórum og skólameisturum.

Fimmtudaginn 20. desember fór fram brautskráning frá Borgarholtsskóla. Brautskráðir voru 97 nemendur af mismunandi brautum, 33  nemendur af bóknámsbrautum, 3 af listnámsbraut, 8 af málm- og véltæknibrautum, 26 af bíltæknibrautum og 27 af félagsvirkni- og uppeldissviði.

Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, en Aðalbjörg Brynja Pétursdóttir var með hæstu einkunn útskriftarnema að þessu sinni.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spilaði í anddyri skólans á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Daði Þór Einarsson.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti hátíðina en kynnir var Nökkvi Jarl Bjarnason kennari við skólann. 

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari fór yfir það helsta markverða á liðinni önn.

Sönghópur Borgarholtsskóla undir stjórn Hreindísar Ylfu Garðarsdóttur Hólm flutti lagið Vikivaki eftir Valgeir Guðjónsson við texta Jóhannesar úr Kötlum. Einnig söng Lára Snædal Boyce nemandi af listnámsbraut Yfir fannhvíta jörð eftir Ron Miller við texta Ólafs Gauks.

Mustafa Abubakr Karim flutti ávarp útskriftarnema, en Mustafa útskrifaðist úr bifvélavirkjun.

Ársæll skólameistari flutti kveðjuorð til útskriftarnema. Hann benti nemendum á að nú ættu þau að búa yfir ákveðinni þekkingu, leikni og færni til að sinna ákveðnum verkum, hvort sem væri í störfum eða áframhaldandi námi. Ársæll hvatti nemendur til að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Leitast við að læra af reynslunni, gangast við mistökum og biðjast afsökunar þegar þörf væri á. Hann minnti jafnframt á að auðmýkt væri undanfari virðingar. Ársæll hvatti til að tileinka sér hollustu, frið og einlægan áhuga. Þetta er einstaklingum ekki endilega meðfætt en allir geta tileinkað sér og notað þetta í lífinu. Að mati Ársæls er nauðsynlegt til að ná þessum eiginleikum að tileinka sér fordómaleysi og opinn huga, vera viðbúinn því óvænta af hugrekki og forvitni, vera tilbúinn að treysta öðrum og mynda jákvæð tengsl.

Ársæll flutti Kvæðið um veginn eftir Stein Steinarr og sagði að flestar manneskjur myndu einhverjum tímapunkti lenda í því vita ekki alveg hvaða veg ætti að fara. Þá væri mikilvægt að treysta á sinn eigin þroska, reynslu og þekkingu og hafa kynnst góðu og traustu fólki sem væru fyrirmyndir og  hægt væri að leita til. Huga skyldi að því sem fyllir hjartað en ekki lófann.

Ársæll ræddi aðeins áfengi og fíkniefni og sagðist trúa því að ungt fólk sé skynsamt fólk sem láti ekki blekkjast af áróðri heldur spyrji spurninga og hafi vilja til að lifa góðu og heilbrigðu lífi.

Ársæll bað nemendur að flýta sér hægt, velja vel það sem þeir taka sér fyrir hendur, gefa sér tíma og skoða vandlega hvaða verkfæri á að nota.  Góð menntun, fordómaleysi, gagnrýnin hugsun og kærleikur er gott veganesti. Hann hvatti þau til að nýta þá möguleika sem biðust og sóa ekki hæfileikum sínum.

Tveir starfsmenn létu af störfum á önninni vegna aldurs. Hafdís Ágústsdóttir var fyrst ráðinn til skólans 2007 og hefur með hléum kennt dönsku síðan þá. Danelíus Sigurðsson var rekstrarstjóri fasteigna við skólann í 17 ár, en hann lét af störfum um miðja önn. Hafdísi og Danelíusi voru færðar þakkir fyrir dygga og alúðlega þjónusta við nemendur og starfsfólk.

Starfsfólki öllu var þakkað fyrir vel unnin störf og nemendum fyrir þeirra skerf til skólans.

Að lokum sungu allir saman Jólin alls staðar eftir Jón Sigurðsson við texta Jóhönnu G. Erlingsdóttur.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag við athöfnina og fleiri myndir er hægt að sjá á facebook síðu skólans .


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira