Borgó eftir 4. maí

30/4/2020

  • Tómir skólagangar á tímum Covid

Nú hefur skólinn verið lokaður síðan 16. mars vegna samkomubanns. Kennsla hefur farið fram í fjarnámi alla virka daga samkvæmt stundaskrá. Kennarar hafa nýtt hinar ýmsu tæknilausnir við kennsluna og þannig leitast við að tryggja sem mesta fjölbreytni í náminu.

Náms- og starfsráðgjafar skólans hafa hvatt nemendur áfram og aðstoðað þá í nýju fyrirkomulagi. Þeir hafa verið í beinu sambandi við marga nemendur en einnig settu þeir saman námstæknifyrirlestra fyrir nemendur til að auðvelda þeim lífið í fjarnáminu.

Frá og með 4. maí verða örlitlar breytingar á  fyrirkomulagi kennslu og þjónustu:

Bóknám - kennsla og námsmat verður áfram með fjarkennslusniði. Nemendur mæta ekki í skólann en kennt verður áfram samkvæmt stundaskrá.

Verklegt nám - Nemendur í verklegu námi munu hefja nám í skólanum eftir ákveðnum reglum og fyrirmælum kennara sinna. Nemendur munu fá sendar leiðbeiningar frá sínum kennurum um framkvæmd námsins, aðgengi að skólanum og umgengni innan skólans.

Listnám - almennt verður kennsla og námsmat með fjarkennslusniði. Á þessu eru þó fáeinar undantekningar sem snerta fyrst og fremst nemendur á lokaári. Kennarar munu senda viðkomandi nemendum nánari upplýsingar um framkvæmdina.

Sérnámsbraut - Kennarar munu hafa samband við nemendur.

Íþróttakennsla - mun áfram fara fram í fjarnámi samkvæmt stundatöflu og mun ekki færast inn í hús.

Dreifnám félagsvirkni- og uppeldissviðs - síðasta lota vetrarins verður í fjarnámi samkvæmt stundatöflu.

Náms- og starfsráðgjöf - Kristín Birna og Sandra Hlín verða áfram til taks í gegnum síma og tölvupóst.

Skrifstofa og bókasafn - Opið áfram fyrir símtöl og tölvupóst en ef nauðsynlegt er að koma á skrifstofu skólans eða ef skila þarf bókum verður að hafa samband fyrst símleiðis.

Einkunnir munu birtast nemendum í Innu á hádegi laugardaginn 16. maí.

Síðasta varða vetrarins verður 20. maí kl. 11:00-13:00. Hver kennari mun svara rafrænt fyrirspurnum nemenda um námsmatið, í gegnum Innu, tölvupóst eða símleiðis.

Skápamál - Nemendur eiga að skila lykilum að skápum og sækja gögn sem þeir kunnu að eiga í skápum. Nemendur þurfa að hafa samband við Sumarliða rekstrarstjóra fasteigna í síma 856 1710 varðandi þetta.

Brautskráning nemenda verður með breyttu sniði 6. júní að því gefnu að aðstæður í samfélaginu leyfi. Nemendur sem eru skráðir til útskriftar á þessari önn hafa verið boðaðir á fund stjórnenda til að ræða framkvæmd og hugmyndir að brautskráningarathöfn.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira